Lækkar greiðslubyrði um allt að 30%

Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor á ráðstefnunni í dag.
Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor á ráðstefnunni í dag. Mbl.is/Árni Sæberg

Vandamál núverandi húsnæðiskerfis er að það eru mjög þungbærar greiðslur og vaxtabyrði af húsnæðislánum í upphafi þegar fólk er að kaupa íbúðir í fyrsta skipti. Þá er þröskuldurinn til að eiga fyrir útborgun nokkuð hár sem mörgum reynist erfitt að yfirstíga. Þessi staða ýtir undir að fólk verði á leigumarkaðnum í staðinn fyrir að eignast sjálft eigið húsnæði, en það er hagfræðilega mjög óhagkvæmt. Þetta kom fram í máli hagfræðiprófessorsins Ragnars Árnasonar á Fasteignaráðstefnunni í Hörpu í dag.

Meðalraunhækkun verið 2,4% síðustu 15 ár

Mbl.is sagði frá hugmynd Ragnars í gær, en þær fela í sér að komið verði á fót fjárfestingasjóði ríkisins fyrir íbúðarhúsnæði. Myndi þá ríkið leggja til 3 milljónir til fyrstu íbúðakaupa einstaklinga gegn eignarhluta upp á þá hlutdeild. Slíkt myndi lækka þörf á eiginfjárframlagi fólks við fyrstu kaup og lækka vaxtakostnað vegna lægri lána. Á móti kæmi að ávinningur eigenda væri minni þegar íbúðaverð hækkar þar sem ríkið myndi eiga hluta eignarinnar og fá sinn hluta af söluverðina þegar íbúðin væri seld.

Ragnar benti í fyrirlestri sínum á að verðhækkun íbúðarhúsnæðis myndi tryggja ávöxtun sjóðsins af þessari fjármögnun og því væri ekki um styrk að ræða heldur fjárfestingarframlag frá ríkinu. Hann sagði að þetta gæti einnig verið fjárfestingahugmynd fyrir einkaaðila eða banka þegar fram líða stundir. Benti hann á að á höfuðborgarsvæðinu væri árleg meðalraunhækkun fyrir landið í heild um 2,4% á árunum 2000-2015. Á höfuðborgarsvæðinu væri hækkunin 2,6 til 2,8% og úti á landi 1,2%.

Ragnar segir nýju leiðina geta sparað kaupendum allt að þriðjung …
Ragnar segir nýju leiðina geta sparað kaupendum allt að þriðjung í greiðslubyrði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Gæti lækkað greiðslubyrði um þriðjung

Ragnar setti upp dæmi fyrir hóflega fyrstu íbúð fyrir par sem væri að kaupa og kostaði 20 milljónir. Ef miðað væri við að hvort þeirra gæti fengið 3 milljóna fjármögnun frá ríkinu og þau væru sjálf með eina milljón í eigið fé, þá væri árleg greiðslubyrði af verðtryggðu 13 milljóna láni til 25 ára um 1,19 milljónir á ári á móti 1,78 milljónum sem slíkt lán kostar í dag. Þetta gæti því vel sparað heimili um þriðjung húsnæðiskostnaðar á ári.

Ókostirnir við þetta fyrirkomulag eru að sögn Ragnar mikil fjármagnsþörf í upphafi, sérstaklega þar sem væntanlega sé uppsöfnuð þörf í dag. Slíkt væri reyndar hægt að takmarka með einhverjum leiðum.

100 milljarða uppsöfnuð fjármagnsþörf

Sagði Ragnar að ef miðað væri við rúmlega 6 ára meðaleignartíma og að fjöldi umsækjenda í þessa leið væri 6 þúsund á ári til að byrja með en svo 3.500 til lengri tíma litið, þá væri kostnaður fyrsta árið 18 milljarðar en færi svo niður í 10 milljarða á fimm árum.

Uppsöfnuð fjármagnsþörf vegna þessa væri í heild 100 milljarðar að hans sögn væri miðað við 3 milljónir á hvern einstakling, en 160 ef horft væri til 5 milljóna.

Til að setja þetta í samhengi sagði Ragnar að heildarvirði íbúðarhúsnæðis á Íslandi í dag væri um 2.800 milljarðar og að útlán Íbúðalánasjóðs nemi 700 milljónum. Sagði hann þetta því raunhæfan möguleika ef vilji væri til að fara þessa leið.

Ármann og Eygló spennt fyrir hugmyndunum

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, var einn af frummælendum í dag. Tók hann undir hugmyndir Ragnars og rifjaði upp að svipað kerfi hefði verið í gangi í 1-2 ár þegar hann keypti sína fyrstu íbúð árið 1987. „Veit ekki af hverju þetta hætti,“ sagði Ármann og bætti við að hann hefði heyrt í mjög fáum sem hefðu nýtt sér þetta svo hann væri ekki viss um hvort þetta væri ímyndun ein, en fundargestur lét vita að hann hefði einnig nýtt sér þetta og því hafi þetta verið raunveruleg aðgerð á sínum tíma.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, var meðal fundargesta og sagði hún í fyrirspurnartíma að henni litist vel á þessar hugmyndir Ragnars og að þær væru í takt við hugmyndir ríkisstjórnarinnar um séreignarstefnu. Sagði hún þó einn ókost vera í þessu máli sem hefði komið fram í greiningu ráðuneytisins á húsnæðisfrumvörpum sem nú liggja fyrir. Það væri að líkur væru til þess að húsnæðisverð myndi hækka samhliða svona aðgerð. „Það er ekki nóg að styrkja eftirspurnarhliðina, það þarf líka að styrkja framboðshliðina,“ sagði Eygló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert