Endurupptökunefnd innanríkisráðuneytisins er ekki heimilt að fella dóma úr gildi en það er andstætt stjórnarskrá. Þetta kom fram í dómi Hæstaréttar í dag.
Þar segir að það sé andstætt meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar að nefndin geti fellt dóma úr gildi. Í þeirri grein kemur fram að Alþingi og forseti Íslandsi fari saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnvöld með framkvæmdarvaldið en dómendur með dómsvaldið. Telur Hæstiréttur því ekki að endurupptökunefndin geti fellt úr gildi dóma sem falla hjá dómstólum landsins.
Þetta getur haft mikil áhrif á stór mál sem eru til meðferðar hjá nefndinni. Helst er að nefna Guðmundar- og Geirfinnsmálið og mál Magnúsar Guðmundssonar sem var sakfelldur í Al Thani málinu.
Á vef Endurupptökunefndar kemur fram að ráðherra skipi í endurupptökunefnd í samræmi við 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 og 2. gr. laga nr. 15/2013. „Hlutverk endurupptökunefndar er að taka ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í héraði eða Hæstarétti,“ segir á vefnum.
Þrír aðalmenn sitja í nefndinni. Alþingi kýs einn aðalmann og varamann hans og dómstólaráð og Hæstiréttur Íslands tilnefna hvort um sig einn aðalmann og varamann.