Setur spurningamerki við endurbætur

Sigríður Ingibjörg er formaður velferðarnefndar Alþingis.
Sigríður Ingibjörg er formaður velferðarnefndar Alþingis. mbl.is/Ómar

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kom á fund velferðarnefndar í gærmorgun. Greindi hann nefndinni frá því að það væri búið að vera að vinna að kröfulýsingu og nýju fjármögnunarmódeli fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í dag mun ráðherra kynna endurbæturnar fyrir fjölmiðlum.

„Það vekur athygli að það á að bjóða út þrjár nýjar heilsugæslustöðvar en það er ekkert nýtt fjármagn til rekstrarins,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og  formaður velferðarnefndar, aðspurð um fundinn og efni hans.

„Mér virðist sem að í stað þess að horfa á vanda heilsugæslunnar, sem er skortur á fjármagni og kannski breytt skipulag starfseminnar, þá er verið að nota tækifærið til þess að breyta rekstrarformi. Það er auðvitað ekki vandamálið á heilsugæslunni heldur skortur á fjármagni,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Þrjár nýjar stöðvar verða stofnaðar á höfuðborgarsvæðinu innan tíðar. Hún segir að ráðherra hafi fengið fjármagn til að leigja húsnæði fyrir stöðvarnar en ekki til reksturins.

„Oddný Harðardóttir þráspurði um þetta í fjárlaganefnd út í þessar þrjár stöðvar og það var ekkert viðbótarfjármagn til þess að reka þær. Þá koma rökin, að fjármagn eigi að fylgja sjúklingum og að þrettán þúsund manns eigi að fá heimilislækni án þess að gert sé ráð fyrir fjármagni til þess,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Hún lagði fram skriflega fyrirspurn til Kristjáns Þór á Alþingi fyrir þremur mánuðum. Þar spurði hún hvort stæði til að breyta rekstrarformi heilsugæslunnar eða annarra heilbrigðisstofnana, hver markmiðin væru og faglegar og fjárhagslegar ástæður og hvort hann hyggðist bera breytinguna undir Alþingi. Einnig hvort stæði til að bjóða út rekstur á heilsugæslustöðvum eða öðrum heilbrigðisstofnunum. Ráðherra hefur ekki svarað spurningunni.

„Það vekur upp tortryggni að ráðherra svari ekki skriflegri fyrirspurn sem honum ber að gera í þrjá mánuði og komi svo með mjög skömmum fyrirvara að biðja um fund og tilkynna að það sé búið að vera að vinna að veigamiklum breytingum,“ segir Sigríður Ingibjörg.

„Á sama tíma hefur hann látið hjá líða að svara spurningum mínum um verkefni sem hann hefur auðsjáanlega staðið á haus í. Þá hugsar maður, af hverju, þolir hann ekki opinbera umræðu um þetta mál fyrr en hann er svo langt kominn að það er erfitt að stoppa það.“

Þrjár nýjar stöðvar verða stofnaðar á höfuðborgarsvæðinu innan tíðar.
Þrjár nýjar stöðvar verða stofnaðar á höfuðborgarsvæðinu innan tíðar. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert