Talið er að hálf til ein milljón manna séu fórnarlömb mansals í Evrópu. Eru flestir seldir í þrældóm í kynlífsiðnaðinum en til eru dæmi um að fólk hafi verið notað í fiskiðnaðinum í Noregi, við berjatínslu í Svíþjóð og í bakaríum í Danmörku.
Þetta segir danski lögfræðingurinn og fyrrverandi þingmaður Enhedlisten, Line Barfod, í samtali við mbl.is. Barford er stödd á Íslandi en hún heldur erindi um mansal, þrælahald nútímans, í Norræna húsinu í dag klukkan 17. Viðburðurinn er á vegum Vinstri grænna, Norræna hussins og Norræna félagsins.
Að mati Barford þurfa yfirvöld og lögregla að vinna saman til þess að berjast gegn mansali. Þá er nauðsynlegt að vinna með lögregluembættum í öðrum löndum. „Það er mikilvægt að rannsaka hvert mál og komast að því hver er sá seki,“ segir Barford.
Þrælar í Evrópu koma m.a. frá Austur-Evrópu, Afríku og Asíu. Barford segir mansal í Evrópu mjög algengt og útbreitt en talið er að hálf til ein milljón manna séu fórnarlömb mansals og þrælahalds í Evrópu.
„Í dag eru fleiri þrælar í Evrópu en þegar að þrælahald var löglegt,“ segir Barford og bætir við að þeir séu oftast notaðir í kynlífsiðnaðinum, m.a. í vændi. „En þrælar eru líka notaðir í byggingaiðnaðinum og landbúnaði. Í Noregi kom í ljós að margir voru notaðir sem þrælar í fiskiiðnaðinum og í Svíþjóð eru þeir oft látnir týna ber. Mörg fórnarlömb mansals bera út blöð í Danmörku til dæmis en hafa líka verið notuð í bakaríum og af glæpamönnum til að stunda þjófnað,“ segir Barford.
Þá hafa þrælar einnig verið notaðir til þess að svíkja út úr kerfinu. „Þrælarnir koma til landa á Norðurlöndunum og fá kennitölu sem er síðan notuð til þess að stofna fölsk fyrirtæki til dæmis. Í Englandi er sömu aðferð beitt til þess að svíkja út félagslega aðstoð,“ útskýrir Barford.
Að sögn Barford eru börn notuð á svipaðan hátt og fullorðnir í þrælahaldi. Eru sum seld í vændi á meðan önnur eru látin baka brauð eða ræna fólk. Hún segir algengt að börn frá Rúmeníu séu notuð til vasaþjófnaðar og minnir það oft á skáldsögu Charles Dickens um Oliver Twist. Þá hafa börn í Englandi verið notuð til þess að rækta kannabis.
Aðspurð hvort að mikið flæði flóttamanna til Evrópu síðustu mánuði geti orðið til þess að þrælum fjölgi í Evrópu segir Barford það vel mögulegt. „Þegar að svona margir eru að koma til Evrópu á hverjum degi munu einhverjir þeirra enda í þrælahaldi.“
Það vakti mikla athygli í síðustu viku þegar að maður var handtekinn í Vík í Mýrdal, í tengslum við mansal í bænum. Um er að ræða eiganda verktakafyrirtækis sem er grunaður um að hafa haldið tveimur konum með erlent ríkisfang í vinnuþrælkun.
Barford segir að Íslendingar þurfi að vera meðvitaðri um mansal. Í Danmörku hefur verið starfandi í rúmlega 10 ár sérstök nefnd sem starfar gegn mansali. „Það gæti verið góð hugmynd fyrir Íslendinga að gera eitthvað svipað. Íslendingar hafa tekið þátt í alþjóðlegum aðgerðum gegn mansali en þurfa að vera vakandi gegn vísbendingum um mansal á Íslandi.“
Hún segir að sterkasta vísbendingin um mansal sé einfaldlega verð á vörum. „Ef þér er boðið eitthvað sem er mjög ódýrt, of ódýrt til þess að passa, þá er vel líklegt að um mansal sé að ræða. En auðvitað eru ekki allir þeir sem notaðir eru á vinnumarkaðinum og eru undir lágmarkslaunum þrælar en sumir þeirra eru það. Góð regla er að einfaldlega spyrja framleiðanda um starfsfólkið.“
Eitt af því sem vakti athygli við málið í Vík var að konurnar voru samkvæmt óstaðfestum heimildum faldar í kjallara íbúðarhúss og vissu íbúar bæjarins ekki af þeim. Barford segir það algengt að fórnarlömbum mansals sé haldið í felum. „Lögregla í Danmörku hefur oft fundið fórnarlömb mansals falin í kjöllurum bakaría og í hesthúsum á bóndabæjum. Svo finnast þau auðvitað reglulega í vændishúsum.“