Íslensk stjórnvöld þurfa að ákveða hvernig á að bregðast við ef framandi gæsategundir fara að hasla sér völl hér á landi, að mati dr. Arnórs Þóris Sigfússonar, dýravistfræðings hjá Verkís.
Hann sendi umhverfis- og auðlindaráðuneytinu minnisblað í desember 2014 þar sem málið var reifað. Arnór hefur ekki enn fengið svar við erindinu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Arnór benti á mikinn vöxt flestra þeirra gæsastofna sem ýmist verpa hér eða fara hér um á leið sinni milli varp- og vetrarstöðva. Allir stofnarnir hafa verið í örum vexti að undanskilinni blesgæs. Heiðagæs og grágæs eru helstu varpstofnar gæsa hér á landi.