Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segir að fyrirtækinu verði að óbreyttu lokað í sumar. Hann sé einfaldlega búinn að gefast upp á endalausu skrifræði þeirra í Japan og verði engin breyting þar á, sé sjálfhætt.
Í Morgunblaðinu í gær kom fram að engar stórhvalaveiðar verði í sumar og ástæðan sé miklar hindranir í Japan við að koma afurðum Hvals hf. á markað.
„Þetta er búið að vera að gerjast lengi. Þetta gengur ekkert lengur og við lokum í sumar ef þessu verður ekki breytt. Við höfum auðvitað verið að vinna í þessu og alltaf eitthvað að nudda, en Japanirnir hreyfa sig ekkert,“ sagði Kristján í samtali við Morgunblaðið í gær.
Kristján bendir á að í alþjóðasamningum sé stuðst við svonefnda CODEX samræmingu séu út af FAO og WHO (Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni) hafi komið á laggirnar og Japan hafi verið eitt af stofnríkjunum. Þessir stuðlar samræmi efnagreiningaraðferðir, prufutökur og fleira, þannig að ef maður flytur vöru frá einu landi, sem styðst við CODEX, til annars lands, séu notaðar sömu efnagreiningaraðferðir þar. „Þetta er viðtekin venja alls staðar, en í Japan eru þeir með aðra aðferð, sem eflaust hefur verið ágæt fyrir rúmum 40 árum síðan. Japan er eina landið í heiminum sem notar þessa aðferð og því er ekki hægt að bera greiningar þeirra og okkar saman. Það má því segja við séum bara í rússneskri rúllettu, hvað þetta varðar. Við sendum vöruna frá okkur til Japans og bíðum svo bara með krosslagða fingur eftir niðurstöðum frá Japan um það hvort þetta er í lagi eða ekki,“ sagði Kristján.
Aðspurður hvort einhver starfsemi væri hjá Hval hf. í Hvalfirði núna, sagði Kristján svo ekki vera. „Við höfum bara verið í viðhaldsstörfum og verðum áfram fram í júní. Svo hættum við þessu bara, ef ekkert breytist hjá þeim í Japan. Embættismannakerfið í Japan er bara þannig að þeir þora ekki að breyta neinu. Stjórnmálamenn ráða nær engu í Japan, því það er embættismannakerfið sem stjórnar landinu,“ sagði Kristján Loftsson.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði, spurður hvað honum fyndist um þessa ákvörðun Kristjáns Loftssonar: „Ástæðan er auðvitað augljós. Hvalur hf. getur ekki stundað stórhvalaveiðar með það að markmiði að flytja út til Japans, miðað við það viðskiptaumhverfi sem er þar í landi.
Það er alveg ljóst að eitthvað þarf að breytast í Japan, til þess að það borgi sig að halda þessum veiðum áfram.“
Utanríkisráðherra segir að utanríkisráðuneytið hafi vitanlega gert það sem því ber, að gæta hagsmuna fyrirtækisins erlendis, „en staðan er bara eins og kom fram í samtali Morgunblaðsins við Kristján, að það hefur lítið breyst og lítið þokast,“ sagði utanríkisráðherra.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær, harma ákvörðun Hvals hf. um að hætta stórhvalaveiðum.
„Ég skil svo sem alveg ástæðu þess að Kristján Loftsson tekur þessa ákvörðun. Hann er í söluvandræðum úti í Japan og það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að Hvalur hf. í Hvalfirði hefur skipt samfélagið hér á Akranesi og í nærsveitum miklu máli. Starfsemin hefur skapað umtalsverða atvinnumöguleika fyrir okkar fólk, þannig að þetta eru sorgartíðindi hvað það varðar,“ sagði Vilhjálmur.
„Ég gleymi því ekkert árið 2009 þegar tilkynnt var að Hvalur hf. myndi hefja hvalveiðar á ný. Þá héldum við fjölmennan fund hér í Bíóhöllinni á Akranesi, og fylltum höllina. Fundarmenn fögnuðu þessu vel og innilega. Þetta var á þeim tíma sem Einar K. Guðfinnsson ákvað að heimila þessar veiðar á ný, en þáverandi stjórnvöld ætluðu að afturkalla þetta leyfi og því vildum við mótmæla hressilega og héldum því þennan samstöðufund,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir að hvalveiðarnar hafi skipt sveitarfélögin miklu máli, vegna þess að útsvarstekjur af starfseminni hafi hjálpað sveitarfélögunum á svæðinu mikið eftir hrun.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sagði aðspurður hvað hann segði um þessa frétt af Hval hf.
„Ég tel þetta vera góð tíðindi og við hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands erum ánægð með þessa ákvörðun. Mér finnst gott hjá Kristjáni Loftssyni að sjá að þetta er ekki að ganga og taka þess vegna ákvörðun um að hætta stórhvalaveiðum.“
„Ástæðan er nákvæmlega sú sama og ég var að gefa upp við þig. Ford er búið að gefast upp á skrifræðinu í Japan og segir að það sé bara ekkert eigandi við þetta. Þannig að við erum eiginlega á sama báti og Ford Motor Company!,“ segir Kristján og hlær við.