Lækkað lóðarverð fyrir fyrstu íbúð

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Kópavogsbær væri mögulega til í að gefa eftir byggingarréttargjöld ef verið er að byggja íbúðir sem eru fyrsta eign fólks. Sala lóða ætti annars að vera á markaðsverði, enda mikilvægur tekjuliður sveitarfélaga. Þetta sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, á Fasteignaráðstefnunni í Hörpu í gær. Var meðal annars rætt um kaup fólks á fyrstu íbúð sem flestir virtust sammála að væri vandamál í dag.

Meðal annars sagði Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor, frá nýrri hugmynd um stuðningskerfi á húsnæðismarkaði. Tók Ármann undir hugmyndir hans og sagði að sveitarfélög, ríki og bankar ættu sannarlega að skoða þessa hugmyndir.

Lagði Ármann jafnframt til að stuðningskerfið yrði endurskoðað með það að markmið að einfalda það. Sagði hann að með þessu nýja kerfi mætti meðal annars leggja niður vaxtabætur. Vildi hann frekar sjá aftur hugmyndir um félagslegt kerfi sem byggðist á verkamannabústöðum, bæði með kaupleigu eða beinum kaupum.

Nokkur umræða hafði einnig farið fram um kostnað einstaklinga við að byggja sjálfir húsnæði. Hafði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, meðal annars gagnrýnt mikinn kostnað sem kemur til hjá sveitarfélögum við úttektir og skipulag. Þá væri lóðarkostnaður einnig mjög hár. Ármann svaraði þessu þannig til að Kópavogur væri ekki til í að lækka söluverð lóða almennt, en hægt væri að horfa til þess þegar um fyrstu íbúðir fólks væri að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert