Sex í mikilli hættu í Reynisfjöru

Myndin var tekin af ferðamönnum í Reynisfjöru skömmu eftir atburðinn …
Myndin var tekin af ferðamönnum í Reynisfjöru skömmu eftir atburðinn sem Hermann lýsir. Mynd/Kiki G.M.P. Stevenhagen

Sex útlendingar voru hætt komnir í sjávarmálinu í Reynisfjöru í gær en tveggja vikna lögregluvakt við fjöruna lauk í fyrradag.

Leiðsögumaðurinn Hermann Valsson varð vitni að atvikinu. Hann segir að um tískumyndatöku hafi verið að ræða. Fyrirsæta hafi staðið nálægt stuðlaberginu á meðan þrír stóðu neðar í fjörunni, þar á meðal einn ljósmyndari. Hinir tveir hafi staðið fyrir ofan fyrirsætuna. 

Aldan kom upp fyrir hné

„Fólkið var gjörsamlega komið ofan í flæðarmálið og aldan kom upp fyrir hné á sex aðilum. Þeir voru í stórkostlegri hættu,“ segir Hermann. „Ég hljóp til þeirra og hjálpaði þeim í burtu upp úr fjörunni en þau náðu að standa í lappirnar.“

Frétt mbl.is: Vaktinni lýkur um miðja viku

Ferðamaður stendur í sjónum á meðan hinir fylgjast með.
Ferðamaður stendur í sjónum á meðan hinir fylgjast með. Mynd/Kiki G.M.P. Stevenhagen

„Voru gríðarlega skelkuð“

Hann segir að ferðamennirnir hafi verið staðsettir umtalsvert neðar en kínverski ferðamaðurinn stóð sem lést fyrir um tveimur vikum. Tvær öldur hafi lent á þeim þremur sem stóðu fyrir neðan fyrirsætuna með nokkurra sekúndna millibili. Í tíu mínútur fram að því hafi verið mjög kyrrlátt í fjörunni og engin læti í öldunum.

„Þau voru gríðarlega skelkuð. Þau frusu bara og stóðu föst. Þau vissu ekkert hvað þau áttu að gera. Mér tókst að komast til þeirra eftir að seinni aldan fjaraði út og hjálpaði þeim í hvelli,“ greinir Hermann frá. Hársbreidd hafi munað að þrír úr hópnum hefðu lent í sjónum. „Fyrirsætan blotnaði líka en þessir sem stóðu fyrir neðan hana hefðu hæglega getað farið út með seinni öldunni ef hún hefði verið örlítið stærri.“

Mynd/Kiki G.M.P. Stevenhagen

Höfðu ekki hugmynd um hættuna

Hann segir að einstaklingarnir, sem voru af asísku bergi brotnir, hafi ekki haft hugmynd um það hversu hættuleg fjaran er. „Ég talaði við túrista á svæðinu og þeim bar öllum saman um að þessi hópur hafði ekki hugmynd um hvað væri að gerast. Ég sagði þeim að sjórinn væri við 0 gráður og þau myndu deyja á fimm mínútum ef þau færu í sjóinn,“ segir hann og voru ferðamennirnir mjög undrandi að heyra það.

Frétt mbl.is: Tvö ný skilti við Reynisfjöru

Mynd/Kiki G.M.P. Stevenhagen

Hjón í brúðkaupsmyndatöku 

Hermann bætir við að skömmu síðar hafi hann séð hjón í brúðkaupsmyndatöku á sandinum og var íslenskur ljósmyndari að mynda þau í flæðarmálinu. Hermann kveðst hafa varað ljósmyndarann við hættunni en hann hafi hunsaði hann og gengið með hjónunum um fjöruna og myndað.

„Fyrir þessa erlendu gesti er þetta einfalt mál. Sjór og sandur er sama og hiti og vellíðan. Það er samnefnari fyrir Benidorm, Mallorca og Costa Brava en Ísland er bara allt önnur Ella.“

Ljósmyndarinn myndar brúðhjónin.
Ljósmyndarinn myndar brúðhjónin. Mynd/Kiki G.M.P. Stevenhagen

Verður að hafa einhvern á verði

Eina leiðin, að mati Hermanns, til að auka öryggi í Reynisfjöru er að hafa þar lögreglumann eða öryggisvörð á vakt hvern einasta dag. Því hafi verið skarð fyrir skildi að enginn skuli hafa verið á verði í gær. „Þetta er eins og að smala fé til fjalla. Þegar smalamaðurinn fer þá rennur féð þar í gegn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert