Vilja að holurnar verði lagaðar

Þessi mynd var tekin af stórri holu í hraðahindrun á …
Þessi mynd var tekin af stórri holu í hraðahindrun á Nesveginum.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn flugvallarvinir lögðu fram á borgarstjórnarfundi tillögu um að þegar í stað verði farið í viðgerðir á þeim holum í gatnakerfinu sem talið er að slysa- og tjónahætta stafi af.

Í tillögunni kemur fram að djúpar holur hafi myndast við Austurberg, Álfabakka, Neshaga og Tungusel og að mörg dæmi séu um að holur hafi valdið tjóni á bifreiðum og skapað slysahættu.

Uppsafnaður vandi

„Þetta er að töluverðu leyti uppsafnaður vandi vegna efnahagshrunsins þegar dregið var saman fé til gatnagerðar. Okkur var sagt að það væri hægt að gera það í nokkur ár án þess að gatnakerfið hryndi. Síðan yrði að bæta í aftur,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem flutti tillöguna.

„Það hefur alltof lítið fé verið sett í endurbætur á kerfinu. Það hefur þær afleiðingar að það verða vandræði eins og við fengum að kynnast síðasta vetur og aftur núna.“

Þessi holumynd var tekin í Álfabakka.
Þessi holumynd var tekin í Álfabakka. Mynd/Sveinn Hjörtur Guðfinnsson

Ekki fyllt upp í til bráðabirgða

Kjartan segir það sérlega slæmt að ekki hafi verið gert við margar slæmar holur í borginni. Skilti hafi verið sett við þær þar sem varað er við hvössum brúnum en það dugi ekki til. „Það er ekki fyllt upp í þær til bráðabirgða. Það er eins og allar viðgerðir eigi að bíða til vorsins. Mér finnst ótrúlegt að áherslurnar hjá meirihlutanum eru á verkefni sem eru ekki einu sinni brýn, eins og þrenging Grensásvegar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert