Hægri grænir heyra sögunni til

Íslenska þjóðfylkingin.
Íslenska þjóðfylkingin.

Aðalfundur Hægri grænna samþykkti einróma á aðalfundi sínum í dag að leggja flokkinn niður og ganga til liðs við nýstofnaðan stjórnmálaflokk, Íslensku Þjóðfylkinguna (ÍÞ), ásamt fleiri hópum og einstaklingum. ÍÞ vill m.a. standa vörð um sjálfstæði Íslands, taka upp ríkisdal og hafnar hugmyndinni um fjölmenningu á Íslandi.

Flokkurinn vill ennfremur Ísland úr Schengen, stórefla löggæslu, almenna skuldaleiðréttingu en er alfarið á móti því að moskur verði reistar á Íslandi. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu sem flokkurinn hefur sent á fjölmiðla.

Helgi Helgason hefur verið formaður Hægri grænna undanfarin tvö ár. Hann segir í samtali við mbl.is að hann hafi nú tekið að sér formennsku í ÍÞ. Aðspurður segir hann að nýi flokkurinn hafi verið stofnaður fyrir um tveimur mánuðum og nú hefjist undirbúningur fyrir þingkosningarnar sem fara fram á næsta ári. 

„Ég hef tekið að mér að vera talsmaður undirbúningsnefndar og bráðabirgðastjórnar fram að framhaldsaðalfundi,“ segir hann. Þar verði farið betur yfir málin fyrir komandi kosningar.

Félagsmönnum verður tilkynnt um breytinguna

Aðspurður segir Helgi að stofnun nýs flokks hafi átt sér nokkurn aðdraganda, eða alveg frá því hann tók við sem formaður Hægri grænna. Þetta var niðurstaðan á aðalfundi flokksins sem fór fram í dag. Tólf sóttu fundinn að sögn Helga en um 230 voru skráðir sem flokksmenn í Hægri græna

„Hægri grænir þeir ganga þarna inn með manni og mús og það verður þannig að þeir sem voru skráðir í Hægri græna fá póst frá okkur þar sem fólki er kynnt þetta, og menn geta þá gert athugasemdir og beðið þá um að afskrá sig eða eitthvað slíkt,“ segir Helgi en hann kveðst ekki eiga vona á því að mikið verði um úrskráningar.

Þá segir Helgi að fleiri hópar eigi eftir að tilkynna um það á næstunni að þeir hafi gengið til liðs við ÍÞ. 

Óttast annan skell

„Markmiðið er það að bjóða fram í kosningum, bjóða þetta fram sem valkost. Það eru margir ekkert ánægðir með hvernig fjármálakerfið hefur yfirtekið þjóðfélagið. Það eru margir eru heldur ekki ánægðir með það hvernig það virðast vera lausatök á t.d. þessum flóttamannamálum. Ríkisborgararétturinn hefur verið gjaldfelldur af Alþingi; við erum ekkert ánægð með það,“ segir Helgi.

„Við viljum fá alvöru skuldaleiðréttingu. Við teljum að það sé mikil þörf fyrir skuldaleiðréttingu - það hafi ekki farið fram skuldaleiðrétting, þ.e. að þeir sem þurftu í sjálfu sér ekki mikið á henni að halda hafi fengið. En þeir sem þurftu virkilega á henni að halda sátu eftir. Við höfum miklar áhyggjur af því að það verði annar skellur hérna,“ segir Helgi og bætir við að mikið af þessum tillögum komi úr stefnuskrá Hægri grænna. Þær eigi enn mikið gildi. 

Vill taka upp ríkisdal,  herða innflytjendalöggjöfina og taka hart á spillingu

Grunnstefna flokksins er að standa vörð vörð um fullveldi og sjálfstæði íslands, íslenska þjóðmenningu, tungu og siðinn í landinu.

„Grunnstefna flokksins er einstaklingsfrelsi, takmörkun ríkisafskipta, gagnsæan sjálfbærann ríkisrekstur (báknið BIRT), beint lýðræði, náttúruvernd, friðsöm og haftalaus milliríkja viðskipti. ÍÞ beitir sér ætíð fyrir jafnvægi í byggð landsins, málefnum fjölskyldurnar, heimilanna og smærri fyrirtækja í einkarekstri sem eru hornsteinar samfélagsins. Málefni öryrkja og aldraða eru ætíð í fyrirrúmi og stefnt skal að útrýmingu fátæktar á Íslandi,“ segir í grunnstefnunni.

Þá styður ÍÞ aðild Íslands að SÞ, NATO, EFTA og norrænu samstarfi, en hafnar alfarið aðild Íslands að ESB og TISA af pólitískum ástæðum. ÍÞ vill Ísland úr Schengen strax og vill hert landamæraeftirlit og mjög herta innflytjendalöggjöf. 

Þá vill flokkurinn stórefla löggæslu, landhelgis - og tollgæslu og auka þátttöku Íslands í eigin vörnum. Flokkurinn vill ennfremur upptöku nýrrar myntar (ríkisdal) sem tengd verði Bandaríkjadal og afnám verðtryggingar.

Einnig vill flokkurinn að reglur um fjármálafyrirtæki verið stórhertar og einn lífeyrissjóður verði fyrir alla landsmenn. Tekið verði af hörku á spillingu og fjármálamisferli.

Flokkurinn styður kristna trú og kristin gildi og viðhorf, en einnig Ásatrú.

ÍÞ er hins vegar alfarið á móti því að moskur verði reistar á Íslandi. Flokkurinn vill að bann verði lagt við búrkum, umskurði kvenna af trúarlegum ástæðum og skólum íslamista á Íslandi. Þá hafnar flokkurinn hugmyndinni um fjölmenningu á Íslandi en styður öflugar aðgerðir til aðlögunar þeirra sem setjast hér að.

Helgi Helgason er formaður Íslensku Þjóðfylkingarinnar.
Helgi Helgason er formaður Íslensku Þjóðfylkingarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert