Í dag safnast Evrópubúar safnast saman í borgum og bæjum víðsvegar um álfuna og krefjast þess að yfirvöld virði mannréttindi fólks á flótta undir yfirskriftinni Safe Passage. Ísland er engin undantekning en hópur fólks hittist á Lækjartorgi í dag.
Það voru þau Nazanin Askari og Toshiki Toma sem fluttu erindi en Askari er pólitískur flóttamaður og öflug baráttukona fyrir mannréttindum. Hún flúði heimaland sitt og fékk hæli á Íslandi. Toshiki Toma er prestur innflytjenda. Hann hefur lengi starfað náið með hælisleitendum og hefur mikla innsýn í aðstæður fólks á flótta. Eftir að þau hafa luku máli sínu var gengið niður að höfn þar sem fram fer kyrrðarstund í minningu þeirra fjölmörgu sem látið hafa lífið við að leita skjóls í Evrópu.
Krafa fundarins er að evrópskir valdhafar, þar með talin íslensk stjórnvöld, taki höndum saman og tryggi fólki í leit að vernd örugga leið inn í Evrópu. Í tilkynningu segir hversu brýnar þær kröfur eru nú þegar ljóst er að lönd Evrópu eru ýmist að draga til baka vilyrði sín til að taka við flóttafólki eða herða innflytjendalög sín enn frekar.
Jafnframt hafa Evrópulönd ekki getað fundið sameiginlega lausn á því hvernig veita má flóttafólki skjól og grípa til þess ráðs að herða landamæraeftirlit og senda herlið til að sjá til þess að flóttafólk komist ekki inn fyrir landamæri Evrópu.