Þingvallanefnd hefur hafnað beiðni um sölu á sumarbústað

Þingvellir hafa gífurlegt aðdráttarafl fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn. Þingvallanefnd …
Þingvellir hafa gífurlegt aðdráttarafl fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn. Þingvallanefnd leggur kapp á að standa vörð um þennan helgistað og reynir að fækka bústöðum innan þjóðgarðsins mbl.is/Ómar

Þingvallanefnd hefur á undanförnum fundum sínum fjallað um ósk eldri hjóna, sem eiga sumarbústað í þjóðgarðinum, nánar tiltekið Kárastaðalandi, í Neðristíg 10, um að fá að selja bústaðinn bandarískum kunningjahjónum sínum, sem voru reiðubúin að greiða gott verð fyrir bústaðinn, eða nálægt 35 milljónum króna, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Niðurstaða nefndarinnar var að verða ekki við þessari ósk og var beiðninni hafnað.

Á forkaupsrétt

Þingvallanefnd á lögum samkvæmt forkaupsrétt á bústöðum sem eru falboðnir í þjóðgarðinum. Nefndin kannaði hug innanríkisráðuneytisins til málsins og voru fyrstu viðbrögð ráðuneytisins að heimila þessi viðskipti.

Þingvallanefnd vildi, samkvæmt fundargerðum frá 19. janúar 2016, 27. janúar 2016, 1. febrúar 2016 og 8. febrúar 2016, kynna sér málið nánar, leita frekara álits innanríkisráðuneytisins og lögfræðilegrar ráðgjafar, því annars vegar var um það að ræða að hjónin seldu bústað, sem þau eiga sjálf, og hins vegar að þau fengju aðgang að lóðaleigusamningnum sem húseigendur hafa gert við ríkið, því landið er allt í eigu ríkisins.

Þar sem bandarísku hjónin eru ekki búsett á Evrópska efnahagssvæðinu, var málinu á nýjan leik vísað til innanríkisráðuneytisins, með vísan til þess hvað gerðist þegar kínverski athafnamaðurinn Nubo vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru skiptar skoðanir um málið í innanríkisráðuneytinu, en á endanum var erindið samþykkt á nýjan leik og barst því aftur inn á borð Þingvallanefndar.

Við svo búið fékk Þingvallanefnd lögfræðiálit frá Lilju Jónasdóttur, hjá lögfræðistofunni Lex. Í hennar áliti kemur fram að hún hallast fremur að því að óskinni verði hafnað, þar sem bandarísku hjónin séu ekki búsett á Evrópska efnahagssvæðinu.

Að fengnu þessu áliti ákvað Þingvallanefnd að hafna beiðninni um leyfi til sölu. Synjunin var samþykkt með fimm atkvæðum þeirra Sigrúnar Magnúsdóttur, formanns nefndarinnar, Haralds Einarssonar, Oddnýjar Harðardóttur, Svandísar Svavarsdóttur og Róberts Marshall, en hjá sátu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, þau Birgir Ármannsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Í bréfi sem Þingvallanefnd sendi eiganda bústaðarins er bent á, að íslensku hjónin geti kært málið og afgreiðsluna til forsætisráðuneytisins.

Heimildir Morgunblaðsins herma að afar ólíklegt sé, að salan verði samþykkt í forsætisráðuneytinu, kæri hjónin á annað borð ákvörðun Þingvallanefndar.

Stefnan að fækka bústöðum

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og formaður Þingvallanefndar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að ákvörðun Þingvallanefndar um að hafna beiðninni, byggðist á því að Þingvallanefnd stefndi að því að fækka sumarhúsum í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

„Við í nefndinni tókum þetta mál fyrir á fjórum fundum, vegna þess að við vildum vera alveg örugg um þessa ákvörðun,“ sagði Sigrún.

„Stefnan hjá okkur hefur alfarið verið sú að við leyfum framsal sumarhúsanna til ættingja og erfingja, en helst ekkert þar fyrir utan.

Við höfum forkaupsrétt, en við höfum ekki tök á því að kaupa upp alla bústaðina. Í einstaka tilfellum höfum við nýtt okkur forkaupsréttinn, en til þess höfðum við enga burði í þessu tilviki,“ sagði Sigrún.

„Þingvellir eru sannarlega helgistaður íslensku þjóðarinnar og allar stærstu stundir þjóðarinnar hafa verið á Þingvöllum. Það er því dýrmætt að við höfum hemil á massatúrisma og fjölgun fjársterkra einstaklinga á þessum helgistað, því maður veit aldrei hver þróunin yrði ef opnað yrði á svona viðskipti,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir.

Frétt mbl.is: Fá ekki að selja útlendingum bústað

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka