Fjórir vakta 20.000

Lögreglumenn á Akureyri.
Lögreglumenn á Akureyri. mbl.is/Skapti

Lögreglufélag Eyjafjarðar hefur miklar áhyggjur af þeim skorti á lögreglumönnum sem hefur verið viðvarandi í Eyjafirði síðustu ár. Staðan sé sú í dag að fjórir lögreglumenn séu að jafnaði á útkallsvakt á Akureyri og sinna 20.000 manna samfélagi.

Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar Lögreglufélags Eyjafjarðar frá 18. febrúar sl. Á fundinum var farið yfir stöðuna en lögreglumenn eru sammála um að fjölga þurfi lögreglumönnum á vakt. 

Hermann Karlsson, formaður Lögreglufélags Eyjafjarðar, bendir á í tilkynningu, að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Halla Bergþóra Björnsdóttir, hafi í fyrra sent erindi til yfirvalda þess efnis að bæta þyrfti að lágmarki við fimm lögreglumönnum á svæðinu. Lögreglufélagið er því algjörlega sammála því og það sé lágmarks viðbót.

Þá kemur fram í ályktuninni að lítil endurnýjun hafi átt sér stað sl. ár. Nú sé meðalaldur lögreglumanna á svæðinu 48 ár. Sú tala eigi aðeins eftir að hækka verði ekki sérstaklega tekið á því. 

Staðan algjörlega óviðunandi

Ályktun félagsins er svohljóðandi:

„Aðalfundur Lögreglufélags Eyjafjarðar, sem haldinn var 18. febrúar 2016, lýsir yfir miklum áhyggjum af þeim skorti á lögreglumönnum, sem hefur verið viðvarandi í Eyjafirði síðustu ár.

Skorið var rækilega niður í mannafla hjá embætti Sýslumannsins á Akureyri í efnahagskreppunni 2008-2011. Framlög til embættisins síðan þá hafa ekki skapað neina möguleika á að ráða menn að nýju. Staðan er sú í dag að 4 lögreglumenn eru að jafnaði á útkallsvakt á Akureyri og sinna 20.000 manna samfélagi. Félagið telur að þessi fámenni fjöldi lögreglumanna standist engan samanburð við það sem gengur og gerist annars staðar á landinu. Í sumar verða almennt áfram aðeins 4 lögreglumenn á hverri vakt og því ljóst að vegna sumarleyfa mun sú staða koma upp að tveir fagmenntaðir lögreglumenn verða á vaktinni og tveir afleysingamenn, ómenntaðir. Þetta er algerlega óásættanleg staða.

Hún er óásættanleg fyrir þá sem þurfa á þjónustu lögreglunnar að halda og hún er óásættanleg fyrir lögreglumennina út frá öryggissjónarmiðum og álagi. Önnur afleiðing af því að engin nýliðun er í liðinu er að meðalaldur lögreglumanna í Eyjafirði fer hækkandi og er nú kominn í rúm 48 ár. Það blasir því við að nýliðun í lögregluliðinu er orðin mjög aðkallandi. Á sama tíma fjölgar stöðugt verkefnum lögreglunnar á öllum sviðum en ekki hvað síst með gífurlegri fjölgun ferðamanna.

Í ljósi þessa lýsir Lögreglufélag Eyjafjarðar yfir áhyggjum af öryggi og velferð félagsmanna sinna og skorar á ráðamenn að taka nú þegar undir mjög hófstilltar tillögur Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um fjölgun lögreglumanna við embættið sem kynntar voru á síðasta ári.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert