Myndu búa við meiri skerðingar

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands mbl.is/Eggert Jóhannesson

Full­trú­ar Öryrkja­banda­lags­ins í nefnd um end­ur­skoðun al­manna­trygg­ingalaga skrifuðu ekki und­ir til­lög­ur nefnd­ar­inn­ar sem af­hent­ar voru fé­lags­málaráðherra. Formaður ÖBÍ, Ell­en Calmon, seg­ir í sam­tali við mbl.is að þeir sem séu með mjög skerta starfs­getu í dag muni búa við meiri skerðing­ar ef til­lög­urn­ar verði að veru­leika.

Ell­en seg­ir málið heil­mikið og flókið enda sé verið að tala um grund­valla­breyt­ing­ar á al­manna­trygg­inga­kerf­inu. Í til­lög­un­um er m.a. lagt til að starfs­getumat sé tekið upp í stað ör­orkumats og frí­tekju­mark af­numið. Sagt var frá til­lög­um nefnd­ar­inn­ar í kvöld­frétt­um RÚV þar sem kom m.a. fram að í nýju til­lög­un­um væri lagt til að þeir sem væru með 50% örök­u­líf­eyri eða elli­líf­eyri gætu unnið hálft starf án þess að líf­eyr­ir­inn skert­ist. Tekju­skerðing af öðrum tekj­um yrði þó 45%. Ell­en seg­ir það mikið áhyggju­efni fyr­ir þá sem eru með mjög litla starfs­getu.

Yrði eng­inn fjár­hags­leg­ur ávinn­ing­ur af því að vinna

„Ef við nefn­um sem dæmi ein­stak­ling með mjög litla starfs­getu, segj­um 75% ör­orku, get­ur hann unnið sér inn smá pen­ing, kannski 10-20 þúsund krón­ur á mánuði. Hann greiðir skatta af því en þar að auki skerðast tekj­urn­ar um 45%. Það ger­ir það að verk­um að fyr­ir þá sem eru með mjög skerta starfs­getu yrði eng­inn fjár­hags­leg­ur ávinn­ing­ur af því að vinna,“ seg­ir Ell­en.

„En þeir sem eru með 50% starfs­getu geta haft ótak­markaðar launa­tekj­ur enda er ekki áætlað að setja neitt þak á þær. Okk­ur finnst það rangt og al­gjör­lega frá­leitt að búa þannig um hnút­ana að fólk sem er með minnstu starfs­get­una og minnstu mögu­leik­ana á þátt­töku á vinnu­markaði búi við rík­ari skerðing­ar en það býr við í dag og að fólk sem hef­ur 50% starfs­getu fái greitt úr al­manna­trygg­inga­kerf­inu þó það sé með of­ur­laun.“

Öryrkja­banda­lagið gerði sérálit um til­lög­ur nefnd­ar­inn­ar sem full­trú­ar Bjartr­ar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í nefnd­inni skrifuðu und­ir. Þá skilaði banda­lagið einnig inn greina­gerð og skýrsl­unni „Virkt sam­fé­lag“ þar sem Öryrkja­banda­lagið skrif­ar í raun nýtt kerfi al­manna­trygg­inga þar sem byggt er á starfs­getumati og greiðslum á grund­velli þess. Er meðal ann­ars lagt til að sam­eina Trygg­inga­miðstöð, Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands og Vinnu­mála­stofn­un í eina stofn­un.

Mik­il­væg­ast að vera virk­ur í sam­fé­lag­inu

Ell­en seg­ir vinnu mik­il­væga fyr­ir þá sem geti stundað hana en mik­il­væg­ast ein­stak­lingn­um sé að vera virk­ur þátt­tak­andi í sam­fé­lag­inu. Á síðasta ári átti Öryrkja­banda­lagið í sam­starfi við Vinnu­mála­stofn­un og Lands­sam­tök­in Þroska­hjálp með verk­efnið „Virkj­um hæfi­leik­ana, alla hæfi­leik­ana“. Þá hvatti fé­lags­málaráðherra op­in­ber­ar stofn­an­ir og fyr­ir­tæki til þess að ráða fólk með skerta starfs­getu. Að sögn Ell­en­ar komu ein­hver störf út úr því átaks­verk­efni en ekki mjög mörg. „En það horf­ir allt öðru vísi við í einka­geir­an­um en hjá op­in­ber­um stofn­un­um og er einka­geir­inn ekki eins op­inn fyr­ir því að ráða fólk með skerta starfs­getu, sem er áhyggju­efni,“ seg­ir Ell­en.

Hún seg­ist von­ast til þess að ráðherra taki til­lit til þeirra skiptu skoðana hópa sem sátu í nefnd­inni um end­ur­skoðun al­manna­trygg­inga þegar frum­varpið verði skrifað. „Þó að ráðherra fái í hend­urn­ar fjöl­mörg sérálit er ljóst að allt of fáir aðilar koma að því að skrifa und­ir til­lög­ur Þor­steins Sæ­munds­son­ar, for­manns nefnd­ar­inn­ar. Eft­ir því sem ég best veit eru það bara stjórn­ar­liðar og full­trú­ar Sam­taka at­vinnu­lífs­ins og ASÍ sem skrifuðu und­ir.“

Hún seg­ir það al­veg ljóst að ráðherra sé ekki að fá skýrslu sem sýni ótví­ræða sam­stöðu þar sem niðurstaðan sé ein­róma og hvet­ur því ráðherra til að horfa til fag­legra til­lagna ÖBÍ í þess­um efn­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert