Fulltrúar Öryrkjabandalagsins í nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga skrifuðu ekki undir tillögur nefndarinnar sem afhentar voru félagsmálaráðherra. Formaður ÖBÍ, Ellen Calmon, segir í samtali við mbl.is að þeir sem séu með mjög skerta starfsgetu í dag muni búa við meiri skerðingar ef tillögurnar verði að veruleika.
Ellen segir málið heilmikið og flókið enda sé verið að tala um grundvallabreytingar á almannatryggingakerfinu. Í tillögunum er m.a. lagt til að starfsgetumat sé tekið upp í stað örorkumats og frítekjumark afnumið. Sagt var frá tillögum nefndarinnar í kvöldfréttum RÚV þar sem kom m.a. fram að í nýju tillögunum væri lagt til að þeir sem væru með 50% örökulífeyri eða ellilífeyri gætu unnið hálft starf án þess að lífeyririnn skertist. Tekjuskerðing af öðrum tekjum yrði þó 45%. Ellen segir það mikið áhyggjuefni fyrir þá sem eru með mjög litla starfsgetu.
„Ef við nefnum sem dæmi einstakling með mjög litla starfsgetu, segjum 75% örorku, getur hann unnið sér inn smá pening, kannski 10-20 þúsund krónur á mánuði. Hann greiðir skatta af því en þar að auki skerðast tekjurnar um 45%. Það gerir það að verkum að fyrir þá sem eru með mjög skerta starfsgetu yrði enginn fjárhagslegur ávinningur af því að vinna,“ segir Ellen.
„En þeir sem eru með 50% starfsgetu geta haft ótakmarkaðar launatekjur enda er ekki áætlað að setja neitt þak á þær. Okkur finnst það rangt og algjörlega fráleitt að búa þannig um hnútana að fólk sem er með minnstu starfsgetuna og minnstu möguleikana á þátttöku á vinnumarkaði búi við ríkari skerðingar en það býr við í dag og að fólk sem hefur 50% starfsgetu fái greitt úr almannatryggingakerfinu þó það sé með ofurlaun.“
Öryrkjabandalagið gerði sérálit um tillögur nefndarinnar sem fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Samfylkingarinnar í nefndinni skrifuðu undir. Þá skilaði bandalagið einnig inn greinagerð og skýrslunni „Virkt samfélag“ þar sem Öryrkjabandalagið skrifar í raun nýtt kerfi almannatrygginga þar sem byggt er á starfsgetumati og greiðslum á grundvelli þess. Er meðal annars lagt til að sameina Tryggingamiðstöð, Sjúkratryggingar Íslands og Vinnumálastofnun í eina stofnun.
Ellen segir vinnu mikilvæga fyrir þá sem geti stundað hana en mikilvægast einstaklingnum sé að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Á síðasta ári átti Öryrkjabandalagið í samstarfi við Vinnumálastofnun og Landssamtökin Þroskahjálp með verkefnið „Virkjum hæfileikana, alla hæfileikana“. Þá hvatti félagsmálaráðherra opinberar stofnanir og fyrirtæki til þess að ráða fólk með skerta starfsgetu. Að sögn Ellenar komu einhver störf út úr því átaksverkefni en ekki mjög mörg. „En það horfir allt öðru vísi við í einkageiranum en hjá opinberum stofnunum og er einkageirinn ekki eins opinn fyrir því að ráða fólk með skerta starfsgetu, sem er áhyggjuefni,“ segir Ellen.
Hún segist vonast til þess að ráðherra taki tillit til þeirra skiptu skoðana hópa sem sátu í nefndinni um endurskoðun almannatrygginga þegar frumvarpið verði skrifað. „Þó að ráðherra fái í hendurnar fjölmörg sérálit er ljóst að allt of fáir aðilar koma að því að skrifa undir tillögur Þorsteins Sæmundssonar, formanns nefndarinnar. Eftir því sem ég best veit eru það bara stjórnarliðar og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og ASÍ sem skrifuðu undir.“
Hún segir það alveg ljóst að ráðherra sé ekki að fá skýrslu sem sýni ótvíræða samstöðu þar sem niðurstaðan sé einróma og hvetur því ráðherra til að horfa til faglegra tillagna ÖBÍ í þessum efnum.