„Enn bara með holuna“

,,Hola íslenskra fræða
,,Hola íslenskra fræða" sem finna má skammt frá Háskólasvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, rifjaði upp samtal sitt við forsætisráðherra frá því í september á síðasta ári er hún tók til máls á Alþingi í dag, en umræðuefnið var það sem kallað hefur verið „hola íslenskra fræða“ eða Hús íslenskra fræða sem rísa á við Arngrímsgötu í Reykjavík.

Spurði þingmaðurinn forsætisráðherra um stöðu mála þegar kemur að byggingu hússins og þá hvað hafi gerst í þeim efnum frá því í september á síðasta ári. 

„Það sem við höfum séð eru fjárveitingar til viðbyggingar Alþingis en ekkert bólaði á Húsi íslenskra fræða í fjárlögum. Eins og ég þarf svo sem ekkert að minna háttvirta þingmenn á, þá var þetta hugsað sem framkvæmd bæði fyrir rannsóknir og kennslu á íslenskum fræðum, en líka sýning á handritum okkar - eins merkasta menningararfs íslensku þjóðarinnar sem er á heimsminjaskrá UNESCO. En við erum enn bara með holuna,“ sagði Katrín í ræðu sinni.

Steig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra því næst í pontu og sagði undirbúningsvinnu vegna fjárlaga nú standa yfir. Að sögn ráðherrans hafa tekjur ríkisins aukist mjög að undanförnu sem veitir um leið aukið svigrúm til að ráðast í hin ýmsu verkefni.

„Það er mikil jákvæðni í garð þessa verkefnis og menn munu eflaust líta það áfram mjög jákvæðum augum í þeirri vinnu sem framundan er,“ sagði Sigmundur Davíð.

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert