Hælisleitandinn sem hótaði að kveikja í sér í kvöld er óánægður með afgreiðslu sinna mála hjá íslenskum yfirvöldum. Frá þessu greinir í tilkynningu frá lögreglu um málið þar sem fram kemur að þessi óánægja var ástæðan fyrir hótuninni.
Frétt mbl.is: Hafði hótað að kveikja í sér
Lögregla var kölluð að Arnarholti á Kjalarnesi á áttunda tímanum í kvöld vegna hótunar mannsins. Málið var tekið mjög alvarlega og var lögregla með mikinn viðbúnað vegna málsins en auk lögreglu fór slökkvilið á vettvang.
Í tilkynningu lögreglu segir að hann hafi verið rólegur þegar lögregla kom á vettvang og að hann hafi ekki lagt eld að sér eða húsnæðinu í Arnarholti.
„Maðurinn var færður af staðnum og til dvalar annars staðar, en hann er undir eftirliti starfsmanna Útlendingastofnunar,“ segir í tilkynningunni. Aðgerðum var lokið rétt fyrir klukkan níu í kvöld.