Ferðamenn í Mývatnssveit sem hyggjast leggja leið sína að Hverfjalli þurfa að leggja bílum sínum út í kant á þjóðveginum sem liggur um sveitina, þar sem vegurinn að fjallinu er ekki mokaður.
Vegna þessa ástands hefur hálfgert ófremdarástand stundum skapast, svo sem þegar gott er veður og fólki finnst tilvalið að ganga á fjallið sem víðsýnt er af, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Á mjóum kanti þjóðvegarins raðast þá upp bílar og alls voru þeir átta þegar fréttaritari Morgunblaðsins í Mývatnssveit átti þarna leið um um fyrir helgina. Sama ástand og við Hverfjallsafleggarann hefur myndast öðru hverju að undanförnu á fleiri stöðum í Mývatnssveit. Fólk leggur þá bílum við þjóðveginn og arkar svo í misjöfnu færi og veðri að þeim áhugaverðu stöðum sem þarna eru.