Alþjóðlegi hrósdagurinn er haldinn hátíðlegur í dag um allan heim. Hrósdagurinn var fyrst haldinn í Hollandi fyrir 13 árum, en breiddist fljótt út og er dagurinn nú haldinn hátíðlegur víða um heim.
Á vefsíðu alþjóðlega hrósdagsins segir að aðstandendur hans vilji að dagurinn verði „jákvæðasti dagur heimsins.“ Þar er jafnframt bent á að engin markaðsöfl tengist deginum eins og verða vilji með suma aðra daga eins og valentínusardaginn, mæðra- og feðradaginn. Allir geti því tekið þátt og verið sé að höfða til einnar af grunnþörfum mannsins; þarfarinnar fyrir viðurkenningu.
„Við gleymum oft að hrósa eða gerum lítið úr þeim hrósum sem við fáum og því þarf að breyta,“ segir Ingrid Kuhlman, stofnandi Þekkingarmiðlunar, sem sérhæfir sig í að miðla þekkingu og styrkja þannig einstaklinga og vinnustaði. Ingrid hvetur alla til að nýta tækifærið og hrósa makanum, börnum sínum, foreldrum, samstarfsfélögum, systkinum, frænkum og frændum og öllum sem viðkomandi þekkir.
Á Facebook síðunni Hrós dagsins verður dagurinn tekinn með trompi og þar má meðal annars finna nokkur góð ráð um hvernig á að taka hrósi með sæmd:
„Mikilvægast er að gangast við hrósinu og sýna þakklæti. Orðin „Takk fyrir“ eða „Virkilega gaman að heyra“ skipta miklu máli og gefa þeim sem hrósar tilfinninguna að þú hafir tekið við hrósinu og kunnir að meta það.“
„Ekki skipta um umræðuefnið þegar þú færð hrós; það gæti virkað sem ókurteisi.“
„Ekki vanmeta sjálfa(n) þig með því að koma með neikvæða athugasemd þegar þú færð hrós fyrir góða frammistöðu.“