Stjórnvöld hafa óljósa stefnu í landbúnaðarmálum en ekki beina hugmynd um hvert eigi að fara. Þótt byggðarstefna sé oft notuð sem rök fyrir núverandi styrkjakerfi, þá hefur engin samræða átt sér stað varðandi til dæmis samþéttingu mjólkuriðnaðar á Suðurlandi, Skagafirði og Eyjafirði. Í nýjum búvörusamningum er meðal annars talað um byggðarsjónarmið en fátt í þeim sem stuðlar að því í raun. Þetta kom fram í máli Daða Más Kristóferssonar, dósents í hagfræði og forseta félagsvísindasviðs Háskóla Íslands á morgunverðarfundi um nýja búvörusamninginn sem haldinn var í morgun.
„Núverandi landbúnaðarkerfi er eins og röð plástra sem enginn er sáttur með,“ sagði Daði og líkti stefnu stjórnvalda við söguna um Lísu í Undralandi þar sem kötturinn segir Lísu að allar leiðir muni leiða hana eitthvað. „Þannig er landbúnaðarkerfið,“ segir Daði.
Sagði hann galla nýju samninganna að þeir væru mjög íhaldssamir og svöruðu ekki kalli tímans um nauðsynlegar breytingar sem þyrftu að eiga sér stað. Undir það tóku fleiri framsögumenn á fundinum sem haldinn var af Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda, Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis, Öryrkjabandalaginu, Viðskiptaráði og ASÍ.
Sagði Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í reykjavík og nágrenni meðal annars að á undanförnum áratugum hefði verið mjög lítið um framfarir í greininni.Sagði hún kerfið hafa brugðist neytendum og tæki ekki mark á kröfum neytenda í dag.
Í erindi sínu fór Daði yfir landbúnaðarkerfið í dag og þær breytingar sem nýr búvörusamningur mun hafa. Sagði hann að núverandi kerfi ekki svara kalli tímans og að nauðsynlegar breytingar þyrftu að eiga sér stað.
Meðal annars nefndi hann að horfa þyrfti til almennra styrkja í staðin fyrir sértækra styrkja sem væru fyrir ákveðnar greinar eða framleiðslu. Nefndi hann að stuðningur til jarðræktar eða nýsköpunarstyrkir sem ýttu undir bætta framleiðni í landbúnaði væru mun vænlegri en beinir framleiðslustyrkir eins og hafa verið og verða áfram í nýja samningnum.
Sagði Daði að með því að opna stuðningskerfið væri hægt að skjóta rótum undir fleiri greinar í framtíðinni en við núverandi fyrirkomulag væru bændur nokkuð fastir áfram í ákveðnum greinum, jafnvel þótt hagkvæmara væri að flytja sig til í annan landbúnað.
Daði sýndi svo tölur þar sem stuðningsþörf bænda eftir greinum kom fram. Er þar bæði átt við stuðning með beinum styrkjum og tollavernd ýmiskonar. Sagði Daði að kjúklingaframleiðsla fengi í raun 66% stuðning þrátt fyrir að enginn beinn stuðningur kæmi til. Væri það vegna tolla á innflutt kjöt. Þá væri styrkur til mjólkurframleiðslu 59% og til eggjaframleiðslu 54%. Hlutfallið fyrir dilkakjöt er 50%, svínakjöt 40%, blómarækt 30% og garðyrkju 15%.
Sagði Daði það koma sér á óvart að greinar sem ekki væru með beinan stuðning væru þarna með þeim hæstu og átti þar við kjúklinga- og svínaframleiðslu.
Allur þessi styrkur er að sögn Daða óhagkvæmur fyrir neytendur og sagði hann að með núverandi samningum væri ljóst að allar breytingar yrðu mjög hægfara. „Fyrstu 5 árin á nákvæmlega ekkert að gerast,“ sagði hann, en samningurinn er til 10 ára. Sagðist hann sjálfur telja það mjög langt tímabil.
„Er hagsmunum neytenda gætt í nýjum búvörusamningum,“ spurði Daði að lokum og svaraði spurningunni sjálfur: „Nei, en næg tækifæri til að gera betur.“