Sammála um fríverslun við Japan

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samþykkt var á Alþingi í dag þingsályktunartillaga um að ríkisstjórninni verði falið að hefja undirbúning fríverslunarviðræðna við Japan á grundvelli yfirlýsinga japönsku ríkisstjórnarinnar um að auka hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar var Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, en meðflutningsmenn koma úr Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð auk Samfylkingarinnar. Tillagan var samþykkt samhljóða á Alþingi af fulltrúum allra flokka.

„Milli við­skipta­lífs landanna hafa um langt skeið verið sterk og traust tengsl sem er bæði tímabært og eðlilegt að hefja á nýtt stig með fríverslun. Við höfum gert fríverslunarsamning við Alþýðulýðveldið Kína og í ljósi jafnvægis er eðlilegt að Japanir og Íslendingar staðfesti tengsl sín með formlegri fríverslun. Misvægið varðandi hinn tollfrjálsa hlut ríkjanna í útflutningi sín á milli kallar sömuleiðis á fríverslun til að leiðrétta þá skekkju. Mestu skiptir þó að Japan og Ísland eru gróin vinaríki með svipaðar áherslur á reglur réttarríkisins, mannréttindi og lýðræði. Að staðaldri eiga ríkin nána samvinnu í hópi svipað þenkjandi ríkja innan alþjóðastofnana. Í samskiptum slíkra vinaríkja á stærð ekki að skipta máli varðandi óskir um fríverslun heldur grundvallarafstaðan um frelsi,“ segir meðal annars í greinargerð með tillögunni.

mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert