Leikmenn vilja eftirnöfnin

Leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu vilja halda í eftirnöfnin.
Leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu vilja halda í eftirnöfnin. Ljósmynd/ Foto Olimpik

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ hyggst mæla með því að farið verði að óskum leikmanna hvað skráningu nafna á treyjur karlalandsliðsins í knattspyrnu varðar. Segir hann leikmennina vilja bera eftirnöfnin á bakinu sökum markaðssjónarmiða fyrir þá sem knattspyrnumenn.

995 manns höfðu skrifað undir áskorun sem afhent var Geir í dag, þess efnis að fornöfn leikmannanna yrðu rituð aftan á keppnistreyjur liðsins fyrir EM í Frakklandi í sumar.

Frétt mbl.is: Vilja eiginnöfn á landsliðstreyjur

Við sama tækifæri veitti Geir eintaki af áliti Íslenskrar málnefndar þar sem vísað er í 12. grein laga um íslenska tungu og íslenskt táknmál en þar segir: „Íslenska er opinbert mál Íslands á alþjóðavettvangi.“

Segir í álitinu að nefndin telji að áletrun á búninga eigi að fylgja íslenskum lögum og íslenskri málhefð og sýna eiginnafn leikmanns.  

Frétt mbl.is: Málnefnd vill eiginnöfn á treyjurnar

„Þetta er áskorun til stjórnarinnar og ég mun auðvitað leggja þetta fyrir hana við fyrsta tækifæri,“ segir Geir. „En þegar við tókum það upp að merkja treyjur leikmanna í undankeppninni, fyrir ekki svo mörgum árum síðan, ráðfærðum við okkur við [leikmennina] og það var eindregin ósk þeirra að föðurnöfnin yrðu notuð.“

Geir Þorsteinsson fyrir miðju ásamt landsliðsþjálfurunum Lars Lagerbäck og Heimi …
Geir Þorsteinsson fyrir miðju ásamt landsliðsþjálfurunum Lars Lagerbäck og Heimi Hallgrímssyni. mbl.is/Golli

Geir segir að stjórn KSÍ hafi á þeim tíma almennt verið þeirrar skoðunnar að nota ætti fornöfnin. Hinsvegar séu leikmennirnir þekktir undir eftirnöfnum sínum í útlöndum og þeir líti á landsliðið sem glugga hvað varðar framtíð ferils þeirra og kynningu á þeim sem knattspyrnumönnum.

„Landsliðið og frammistaða í landsliðinu hefur oft þau áhrif að þeir skipta um félög og komast lengra,“ segir Geir og svarar því aðspurður til að segja megi að leikmenn líti á eftirnöfnin sem vörumerki.

„Við munum ræða [að breyta treyjunum] en mín tillaga er sú að við förum að óskum leikmanna eins og gert hefur verið hingað til.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert