Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar, reiknar með því að stjórnendur í álverinu í Straumsvík hefji útskipun á áli um hádegisbilið.
Að sögn Kolbeins eru félagsmenn Hlífar farnir heim, þar sem yfirmenn þeirra töldu ekki vera not fyrir þá vegna verkfalls þeirra.
Frétt mbl.is: Stjórnendurnir mega lesta skipin
Fimmtán stjórnendur álversins mega ganga í störf verkamannanna. Von er á starfsmönnum Vinnueftirlitsins á staðinn og munu þeir athuga hvort stjórnendurnir hafa tilskilin leyfi til að sinna störfunum. Meðal annars þurfa menn að hafa réttindi á stóra 25 tonna lyftara sem eru við höfnina.
„Það þarf að hífa niður í krönunum. Fólk þarf að stýra og passa að þetta sé á réttu nótunum. Öryggisatriðin þurfa að vera á hreinu,“ segir Kolbeinn, sem hefur áhyggjur af því að yfirmennirnir ráði ekki við verkefnið. „Ég veit ekki til þess að þetta fólk hafi nokkurn tímann unnið við þessi störf.“
Hann segir slysahættuna vera mikla á svæðinu. „Þetta eru það stór stykki sem er verið að hífa um borð. Það er mikil áhætta í þessu starfi en sem betur fer hafa vel þjálfaðir menn verið í þessu. Þetta eru reyndir menn til tuga ára."
Um 10 til 15 manns verða í verkfallseftirliti við höfnina í Straumsvík til að fylgjast með því að allt fari eftir settum reglum.