„Píratar hafa lagt fram frumvarp þess efnis að lög um helgidagafrið verði afnumin og fyrir þrábeiðni Guðmundar Steingrímssonar fékk hann að vera með.“
Svo segir á heimasíðu þingflokks Pírata þar sem gert er grein fyrir því að flutningsmenn frumvarpsins, píratarnir Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir og
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir auk Guðmundar Steingrímssonar úr Bjartri framtíð sjái ekki ástæðu fyrir því að það að standa að bingóspili, happdrætti, dansleikjum eða öðrum samkomum á helgidögum þjóðkirkjunnar varði sektum.
Í greinargerð frumvarpsins segir að miklar breytingar hafi orðið á samsetningu íbúa á Íslandi síðustu áratugi og að einnig hafi straumur ferðamanna aukist mjög, ekki síst um jól og páska.
„Það skýtur því skökku við að á sama tíma og Ísland er markaðssett sem áfangastaður um hátíðirnar skuli flestir veitingastaðir og búðir lokuð á heilögustu dögunum,“ segir í greinargerðinni.
„Gerð er sú krafa að atvinnurekendur fái að ráða því sjálfir hvort þeir hafa opið á hátíðisdögum, en þó í samráði við starfsmenn og með hliðsjón af ákvæðum kjarasamninga um hvíldartíma og álagsgreiðslur. Skoðanir þessar eru ekki einangraðar við hagsmunaaðila heldur hafa þær einnig heyrst úr röðum þjóðkirkjunnar.“
Samkvæmt greinargerðinni telja flutningsmenn frumvarpsins lögin um helgidagafrið „úreltan lagabókstaf“ og að löngu sé tímabært að nútímavæða fyrirkomulagið. Tilgangur laganna sé að tryggja að frið fólks sem vill stunda helgihald til þess en ástæðulaust sé að takmarka með lögum frelsi annarra á þeim d-gum.
„Það hlýtur að stríða gegn því frjálsa samfélagi sem við viljum hafa í hávegum. Að auki gerir stóraukinn straumur ferðamanna það að verkum að nauðsynlegra er nú en fyrr að gera breytingar á helgidagalöggjöfinni.“