Hjólastígar, hlykkjótt sleðarennibraut, kláfur upp á fjallstopp, veitingastaður á fjallstindi og reiðstígar. Þetta er meðal þeirra hugmynda sem verið hafa uppi um nýtingu útivistarsvæðisins í Hlíðarfjalli á Akureyri yfir sumarmánuðina.
Nú gæti enn bæst við í hugmyndabankann, því bærinn auglýsti nýverið eftir hugmyndum um nýtingu svæðisins að sumarlagi. Nokkrar tillögur bárust og nú er verið að vinna úr þeim.
„Við erum að taka þetta saman og ætlum að taka okkur tíma, skoða það sem kom inn og melta það,“ segir Ellert Örn Erlingsson, forstöðumaður íþróttamála hjá Akureyri. Undanfarin ár hefur frístundabyggðin Hálönd risið á svæðinu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.