Á fyrstu átta mánuðum kjörtímabils meirihlutans í Reykjavík voru skipaðir 74 starfs- og stýrihópar. Í stað þess að setja af stað vinnu við nýja stefnumótun ætti að gera meira af því að framkvæmda gildandi stefnur. Þetta kemur fram í bókun minnihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn Kjartan Magnússon, borgarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is að hann telji oft að stofnaðir séu nýir hópa um málefni sem þegar hefði verið farið í stefnumótunarvinnu um.
Kjartan segir að þetta eigi meðal annars við í tveimur málaflokkum þar sem ákveðið var að stofna stýrihópa á fundinum á þriðjudaginn. Málefnin voru aðgangsmál fatlaðs fólks og um matarstefnu borgarinnar.
Bendir hann á að í gangi sé fastanefnd sem heiti ferilnefnd fatlaðs fólks og þá hafi hann sjálfur komið mikið að stefnumótunarvinnu í tengslum við matarstefnu. Slíkt taki talsverðan tíma og kosti peninga og segist Kjartan velta fyrir sér tilganginum með stofnun nýrra hópa og efna til kostnaðar vegna þess.
Reyndar segir Kjartan að það sé hálf skrautlegt að fylgjast með því hvað svona hópar séu kallaðir. Áður fyrr þótti rétta að kalla tímabundna vinnuhópa nefndir. Svo hafi það nafn fengið á sig óorð og fólk hætti að taka mark á nefndarskipunum. Segir Kjartan að þá hafi verið fundið upp orðið starfshópur sem var mjög vinsælt á tímabili.
Síðar var talsvert gert í því að stofna aðgerðahópa þó það nafn hafi aldrei náð miklu flugi. „Nú eru svo nýir tímar runnir upp. Nú er eiginlega eingöngu skipaðir stýrihópar,“ segir Kjartan og bætir við: „Kerfið er alltaf að fara í hringi.“
Hann segir að nauðsynlegt sé að skipa einhverja hópa, en að nú sé komið full mikið af því góða. „Menn nota þessa leið að skipa hóp þegar þeir eru með allt niður um sig. Það kaupir tíma,“ segir Kjartan.
Í stað þess að stofna alltaf nýja hópa segir Kjartan að það þyrfti frekar að bæta verkstjórnina. Í fjölmörgum málaflokkum sé nú þegar til stefna sem sé mjög góð, en framfylgdin hafi ekki gengið eftir.
Nefnir hann sem dæmi að ferilnefnd fatlaðs fólks hafi síðasta sumar fengið skýrslu um aðgangsmál fatlaðra. Skýrslan hafi verið rædd í nefndinni en svo hafi engar úrbætur verið gerðar innan borgarkerfisins. Nú eigi svo að stofna nýja nefnd um svipað málefni í stað þess að nýta fyrri nefndina. Segir Kjartan að nefndir þurfi svo að ganga á eftir hugmyndavinnunni og senda inn greinargerðir þegar fjárhagsáætlun sé afgreidd og ákvarðanir teknar í málaflokknum. Ef slíkt sé ekki gert séu nefndirnar í raun tilgangslausar. Segir hann að meiri orka þurfi að fara í að nefndirnar standi sig betur í þessu.
Segir Kjartan að helsta ástæða þess að svona margir hópar séu stofnaðir sé fyrir meirihlutann að kaupa sér tíma. „Borgarstjórnarmeirihlutinn með allt niður um sig á mörgum sviðum, í stað þess að bæta verkstjórnina og koma þörfum málum í framkvæmd þá er hann upptekinn að því að skipa endalausa starfshópa sem verða svo í stefnumótunarvinnu mánuðum eða misserum saman. Meðan þessi tímafreka stefnumótunarvinna á sér stað er hægt að vísa til hennar þó ekkert sé gert,“ segir Kjartan.