Snorri Óskarsson krefst 12 milljón króna bóta frá Akureyrarbæ vegna ólögmætrar uppsagnar. Bótakrafan var lögð fyrir á fundi bæjarráðs í gær, en í bréfi lögmanns Snorra til bæjarins segist hann vilja ná samkomulagi um endanlega upphæð. Takist það ekki þá verði leitað til dómskvadds matsmanns.
Snorri var grunnskólakennari, en var sagt upp störfum hjá Akureyrarbæ vegna ummæla um samkynhneigð á á bloggsíðu sinni. Bæði héraðsdómur og hæstiréttur hafa dæmt uppsögnina ólögmæta og féll dómur hæstaréttar í febrúar sl.
Bótakrafan tekur til launa sem Snorri varð af, eins og þau voru reiknuð af dómskvöddum matsmanni þann 1. maí á síðasta ári og hljómar upp á tæplega 8 milljónir króna með vöxtum frá því í maí. Í bréfi lögmanns Snorra kemur fram að hann vilji ná samkomulagi um útreikning kröfunnar frá því í maí og þar til að dómur féll í Hæstarétti og verður því að teljast líklegt endanleg bótakrafa verði hærri.
Þá er gerð krafa um fjórar milljónir í miskabætur. Lögmaður Snorra segir miskakröfuna óumdeilda, þó annað geti átt við um upphæðina. Miskakrafan sé því sett fram ósundurliðuð til að gera bæjaryfirvöldum kleift að komast að niðurstöðu á eigin forsendum áður en viðræður hefjast.
Að sögn Ingu Þöll Þórgnýsdóttur, bæjarlögmanns Akureyrarbæjar verðu kröfu Snorra svarað á næstu vikum.