Ferðabloggararnir Jacqueline og Shannon draga ekkert undan í lýsingum sínum á því hversu miklum vonbrigðum þær urðu fyrir í heimsókn í Bláa lónið. Þær stöllur blogga á síðunni The Strange & New og stæra sig af því að fjalla ekki bara um góðu staðina heldur líka þá sem þær hefðu betur sleppt. Bláa lónið fellur undir flokkinn „Það sem við hötum“.
Shannon segir lónið álíka heillandi og gervigras og vitnar í lýsingu á lóninu þar sem það er kallað vin afslöppunar umkringd ótrúlegri náttúru.
„Þessi er svolítið sönn en bara ef „ótrúleg náttúra“ þýðir byggingarkranar og „vin afslöppunar“ þýðir að þurrka svitann af þörunga-klístruðu enninu á sér og hugsa „Hmm, var þetta plastglas af volgu rauðvíni 10 dala virði?“
Jacqueline tekur undir með vinkonu sinni og segir að það eina sem standist í auglýsingum Bláa lónsins sé að það er blátt.
„Það er ekki einu sinni lón: Það er vel byggð sundlaugð fest við nýstárlega heilsulind sem reynir ekki einu sinni að falla inn í fagurt umhverfið, sem það raskar svo algjörlega og fullkomlega, en heldur samt fram að hún sé hluti af,“ skrifar hún.
„Það er allt það sem er að ferðamennsku.“
Hún mælir þess í stað með Gömlu lauginni á Flúðum eða öðrum heitum laugum sem „stela ekki 100 dölunum þínum og reyna að stela sálu þinni“.