AFA JCDecaux á Íslandi mun taka þátt í forvali Reykjavíkurborgar á rekstri hjólaleigu í borginni. Þetta staðfestir Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri AFA JCDecaux á Íslandi, og segir fyrirtækið búið að bíða í nokkurn tíma eftir að borgin auglýsi eftir slíkri leigu.
„Ég tel að það þurfi svona 80-100 reiðhjól og 5-6 stöðvar í kringum miðbæinn til að koma þessu af stað,“ segir Einar. „Ég sá að borgarstjóri talaði mikið um miðbæinn og ég tel að það væri fínt sem fyrsti fasi og svo væri hægt að stækka þetta eftir þörfum.“ Alþjóðafyrirtækið AFA JCDecaux rekur hjólaleigur í um 170 löndum og bendir Einar á að bara í París séu til að mynda 23.600 hjól á 1.800 hjólastöðvum.
Einar telur raunhæft að halda úti hjólaleigu í Reykjavík 7-8 mánuði á ári. Dýrt er hins vegar að koma slíkri hjólaleigu af stað og er fyrirtækið nú að skoða hvaða reiðhjól kunni að henta. „ Við myndum ekki nota sömu hjól og í París, því þau eru bara of dýr.“ Hjólin í París kosta að hans sögn í kringum eina milljón króna ásamt standinum. „Við erum núna að skoða reiðhjól í Danmörku, sem eru svipuð þeim sem eru notuð í Árósum. Þau eru ódýrari, en eru samt vönduð og eiga að þola vel íslenskar aðstæður.“
Einar segir að erlendis sé hjólaleigan almennt byggð upp í kringum almenningssamgöngur. „Þeir sem t.d. vilja taka strætó eða lestina í vinnuna geta þá leigt hjól í nágrenni stoppistöðvar og hjólað svo síðasta spölinn í vinnuna.“
Misjafnt sé hins vegar hvort hjólaleigurnar séu ætlaðar heimamönnum eða ferðalöngum og slíkt þurfi að liggja fyrir áður en leigan er sett upp. Dæmi um báðar leiðir er að finna hjá AFA JCDecaux. Önnur leiðin gerir ráð fyrir að hægt sé að taka hjólið og skila á sitthvorri stöðinni, en hin gerir ráð fyrir að hvert hjól eigi sinn eigin stand. „Það er misjafnt eftir löndum hvort þetta er ætlað túristum eða heimamönnum og það fer bara eftir þarfagreiningu í hverri borg.“ Sumar borgir bjóði hins vegar upp á báðar gerðir. „Í Danmörku, að mig minnir í Árósum, þá má til að mynda finna báðar tegundir.“
Mismikið utanumhald er með stöðvunum eftir því hvor útgáfan verður fyrir valinu, en greiðslukerfið á þó að vera sjálfvirkt í báðum tilfellum. „Það þarf minna eftirlit með þeim stöðvum þar sem hjólinu er skilað á sama stað. En ef það á að vera hægt að taka hjól og skila á sitthvorri leigunni þá þarf að fylgjast vel með fjölda hjóla á hverjum stað – hvort þau séu of mörg eða of fá.“