Vill fá loforð og stutt kjörtímabil

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnarandstöðuflokkarnir eiga að sameinast um fá loforð og stutt kjörtímabil fyrir næstu alþingiskosningar. Þetta segir Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinna,r sem boðið hefur sig fram til embættis formanns flokksins.

Helgi var í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrir skemmstu. Sagðist hann hrifinn af hugmynd Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, um að gefa fá kosningaloforð og hafa næsta kjörtímabil styttra en venja væri.

Byggja þarf aftur upp tapað traust

„Ég er ákaflega hrifinn af þeirri hugmynd og að við myndum um leið tryggja sem allra mesta samstöðu innan þeirra flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu. Þeim mun meiri sameiningu sem hægt er að skapa hjá því fólki sem styður þessa flokka, þeim mun betri,“ sagði Helgi.

„Það sem skiptir máli er að gleyma því ekki að stjórnarflokkarnir munu setja pening í að sækja sér meira fylgi. Við þurfum að byggja aftur upp það traust sem hefur tapast og þessi hugmynd Birgittu er vel til þess fallin að byggja upp traust.“

Djúp kreppa Samfylkingarinnar

Sem þingflokksformaður Samfylkingar sagðist Helgi finna til ábyrgðar sinnar hvað varðaði lítið fylgi flokksins í skoðanakönnunum.

„Ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að ná aftur breiðfylkingu saman. Þetta er svo djúp kreppa sem flokkurinn á í að það þarf gagngerar breytingar á stefnuáherslum, starfsháttum og skipulagi. Ég get náð fram jákvæðum breytingum í þessu,“ sagði Helgi og bætti við að forystusveit flokksins þyrfti á verulegri endurnýjun að halda.

„En við þurfum einnig reynslu og þekkingu og það er kannski helst formaðurinn sem því hlutverki þarf að gegna.“

Séríslenskar lausnir virka almennt ekki, segir Helgi Hjörvar.
Séríslenskar lausnir virka almennt ekki, segir Helgi Hjörvar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skoða hugmyndir um samfélagsbanka

Þá sagði hann ljóst vera að stefnumál flokksins væru ekki að höfða mikið til fólks, þar sem tveir af hverjum þremur kjósendum hefðu yfirgefið hann.

Sagðist hann vilja ráðast í aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka, banna samráð banka og setja skorður við þjónustugjöld þeirra.

„Svo tel ég að við ættum að skoða með jákvæðum huga þær hugmyndir sem Frosti Sigurjónsson hefur sett fram um samfélagsbanka. Bankakerfinu fylgir alltof mikill kostnaður fyrir heimilin í landinu.“

Verðtrygginguna sagði Helgi að Íslendingar þyrftu að losna við.

„Við lærðum það af hruninu að svona séríslenskar lausnir virka almennt ekki. Unga fólkið á í mestu erfiðleikum með að kaupa sér húsnæði því vextir hér eru margfalt hærri en í nágrannaríkjunum. Þetta er stærsta lífskjaramál á Íslandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert