Félagarnir hleyptu BDSM inn

Ný stjórn Samtakanna '78 sem kjörin var á laugardag.
Ný stjórn Samtakanna '78 sem kjörin var á laugardag. mynd/Samtökin '78

Ákvörðun aðalfundar Samtakanna '78 um að veita BDSM á Íslandi aðild að félaginu hefur skapað miklar umræður félagsmanna. Í yfirlýsingu vegna hennar segir nýkjörinn stjórn Samtakanna '78 að ákvörðunin hafi verið félagsmanna sjálfra en ekkert hafi breyst við aðild BDSM á Íslandi.

Aðalfundur Samtakanna '78 fór fram á laugardag og var þar samþykkt að veita félögunum Hinsegin Norðurlandi og BDSM á Íslandi aðild. Ný stjórn var jafnframt kjörin á fundinum og gaf hún út yfirlýsingu vegna aðildar BDSM á Íslandi sem hafi reynst umdeild á meðal félagsmanna í dag.

Í henni kemur fram að hvorki núverandi né fyrrverandi stjórn hafi tekið ákvörðun um aðild BDSM á Íslandi heldur hafi hún verið tekin af æðstu stofnun samtakanna þar sem félagsfólk sjálft ráði ferðinni, aðalfundinum. Hvorug stjórnin hafi tekið afstöðu til málsins eða gefið út ákveðna línu um það.

„Ekkert hefur breyst“

BDSM á Íslandi hefur ekki „sameinast“ Samtökunum ‘78. Samtökin ‘78 séu regnhlífarsamtök ólíkra hinsegin félaga, þótt félagsaðild hafi verið og sé enn bundin við einstaklingsaðild. BDSM á Íslandi verði nú í hópi átta annarra félaga.

„Samtökin ‘78 eru enn þau sömu. Það hefur ekkert breyst. Fræðslan er ekki breytt. Ráðgjöfin. Ungliðastarfið. Þetta starf verður áfram unnið undir sömu formerkjum, af sama fólki, og er allt jafnfrábært og faglegt og verið hefur. Það sem hefur breyst er að lítið samfélag fólks hefur leitað til félagsins og hefur fengið þar skjól, eins og margir aðrir hópar,“ segir í yfirlýsingunni.

Ný stjórn muni boða félagsfund eins fljótt og auðið er, enda kappsmál stjórnar að viðhafa upplýsta og opna umræðu um þau álitamál sem brenna á fólki. Fimmtudaginn næstkomandi, 10. mars, verður opinn fundur að Suðurgötu 3 frá kl. 20-22 þar sem hægt verður að ræða málin við nýkjörna stjórn.

„Við hvetjum félagsfólk til að taka þátt í samtalinu um þennan þátt starfsins, sem og alla aðra þætti. Við hlökkum til samstarfsins,“ segir í yfirlýsingu stjórnar Samtakanna '78.

Yfirlýsing stjórnar Samtakanna '78 vegna aðildar BDSM á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert