Tæplega 87 prósent Vestmannaeyinga eru óánægð með núverandi fyrirkomulag sjósamgangna milli lands og Vestmannaeyja. Tæp sjö prósent þeirra eru ánægð með núverandi fyrirkomulag og 6,6 prósent svöruðu hvorki né í könnun MMR vann fyrir Eyjar.net um samgöngumál.
93,2 prósent svarenda sögðu það ólíklegt að Landeyjahöfn í óbreyttu ástandi mundi ein og sér ná að þjóna framtíðar sjósamgöngum við Vestmannaeyjar allt árið um kring.
Alls var hringt í 874 aðila með lögheimili í Vestmannaeyjum og af þeim voru 515 einstaklingar sem svöruðu könnuninni líkt og fram kemur á fréttavefnum Eyjar.net.
Bæjarbúar bera áberandi minnst traust til Vegagerðarinnar þegar spurt var: „Hversu mikið eða lítið traust berð þú til eftirfarandi aðila til að taka ákvarðanir um framtíðarskipulag sjósamgangna milli lands og Vestmannaeyja?“
Sögðust tæp 74 prósent bera lítið traust til Vegagerðarinnar samanborið við 14,7 prósent sem sögðust bera mikið traust til stofnunarinnar.
Til innanríkisráðuneytisins bera 58,5 prósent lítið traust til þess að taka ákvarðanir um samgöngumál og tæp 50 prósent bera lítið traust til bæjarstjórnar Vestmannaeyja til þess að taka ákvarðanir. 34 prósent svarenda sögðust bera mikið traust til bæjarstjórnar til þess að taka ákvarðanir um samgöngumál Eyjamanna.