Náttúruverndarhreyfingin, útivistarsamtök og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) hafa undirritað viljayfirlýsingu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
„Markmiðið með viljayfirlýsingunni er að ná sem víðtækastri samstöðu um verndun miðhálendis Íslands með stofnun þjóðgarðs í eigu íslensku þjóðarinnar. Þau samtök sem undirrita yfirlýsinguna eru sammála um að hálendisþjóðgarður geti orðið eitt stærsta framlag okkar tíma til náttúruverndar á Íslandi um leið og þjóðgarðurinn yrði griðastaður fyrir þá sem vilja njóta náttúru miðhálendisins og nýta hana til ferðamennsku, útivistar og náttúruupplifunar,“ segir í tilkynningu.
Kemur þar einnig fram að sú samstaða sem náðst hefur með viljayfirlýsingu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands markar „tímamótasamstöðu um náttúruvernd á Íslandi“.
En í þjóðgarði felast mörg tækifæri og er náttúruvernd þar undirstaðan. Byggja tækifærin, að því er fram kemur í tilkynningu, á því að náttúrugæðum miðhálendisins verði ekki raskað frekar og að upplifun víðerna og óbyggða sem þar má finna hverfi ekki.
„Búa þarf svo um hnútana að hægt sé að þróa atvinnustarfsemi sem spillir ekki náttúrugæðum miðhálendisins, en hefur á sama tíma jákvæð áhrif á byggða- og atvinnuþróun í nærsveitarfélögum og landinu öllu. Þannig getur stofnun hálendisþjóðgarðs verið atvinnuskapandi um leið og sjálfbærni er höfð að leiðarljósi“.
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem framkvæmd var af Gallup í apríl 2015 eru yfir 60% landsmanna fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu á sama tíma og 13% eru því andvíg.
„Náttúra Íslands er einstök í augum þeirra erlendu ferðamanna sem sækja landið okkar heim og þá ímynd ber okkur að varðveita,“ segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í tilkynningu.
„Náttúran er okkar verðmætasta auðlind og hún er ekki óþrjótandi. Með stofnun þjóðgarðs yrði myndaður skýr rammi utan um hin gríðarlegu verðmæti sem felast í ósnortinni náttúru á miðhálendi Íslands. Þá felast í hugmyndinni mikil tækifæri til atvinnusköpunar þar sem vernd og nýting fara saman,“ segir hann ennfremur.