39% morða tengd heimilisofbeldi

Af þeim konum sem myrtar voru flokkast 69 prósent sem …
Af þeim konum sem myrtar voru flokkast 69 prósent sem heimilisofbeldismál. mbl.is/Styrmir Kári

 Af 56 morðum sem framin voru á Íslandi á árunum 1980 til 2015 voru 22 tengd heimilisofbeldi.

Þetta kemur fram í árlegum bæklingi mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Kynlegar tölur, sem gefinn var út í dag í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti.

40 karlar voru myrtir á ofangreindu tímabili og 16 konur.  Af þeim konum sem myrtar voru flokkast 11 sem heimilisofbeldismál, þ.e. morð sem eru framin af skyldum eða tengdum einstaklingi, eða 69 prósent.  Jafnmörg morð á körlum flokkast sem heimilisofbeldismál, 11 alls, en þau er 28 prósent allra morða á karlmönnum á tímabilinu. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að þessar tölur undirstriki mikilvægi þess að vinna markvisst gegn ofbeldi með þjónustu við brotaþola og gerendur.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að 554 hafi framið sjálfsvíg frá árinu 2000 til og með 2014. Þar af sviptu 419 karlar sig lífi en 135 konur.

Allir formenn íþróttafélaga karlar

Kynlegar tölur hefur að geyma ýmsar aðrar tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna . Auk morða er sjónum m.a. beint að  útvarpi og hlaðvarpi, heilbrigðismálum og íþróttafélögum í Reykjavík.

Þannig er greint frá því að allir formenn hverfisíþróttafélaga í Reykjavík eru karlmenn og í stjórnum þeirra allra eru karlar í meirihluta. Þá eru iðkendur á aldrinum 6 til 18 ára að meirihluta karlkyns.

„Í stjórnum annarra íþróttafélaga sem styrkt eru af borginni eru í sumum nokkuð jöfn kynjahlutföll en í öðrum eru einungis karlar í stjórn. Konur eru 8 prósent þeirra sem hafa verið kjörnar íþróttamenn ársins af Félagi íþróttafréttamanna,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Þá er vísað í mælinguá kynjahlutfalli viðmælandi í nokkrum frétta- og fréttatengdum þáttum sem gerð var af Fjölmiðlavaktinni yfir tímabilið september 2014 til septembers 2015. Þar voru karlar í meirihluta en að auki eru fleiri karlar en konur fastir þáttastjórnendur í langflestum útvarps- og hlaðvarpsstöðvum sem skoðaðar voru.

„.Jafnast er kynjahlutfallið hjá Alvarpinu, konur 42% og karlar 58% og hjá Lindinni, konur 45% og karlar 55%. Konur eru 60% fastra þáttastjórnenda á Rás 1 og 35% þáttastjórnenda á Rás 2. Engar konur eru fastir þáttastjórnendur á x977.“

Einnig var rannsökuð kynjaskiptin á komum á ólíkar göngudeildir landsspítalans sem snúa að meðferð krónískra sjúkdóma. Árið 2015 voru karlar mun tíðari gestir á skilunar- og svefnrannsóknadeildir spítalans sem og deildir innan hjartalækninga en konur eiga fleiri komur á nokkrar af göngudeildum lyflækninga s.s.  göngudeildir gigt-, lungna og taugalækninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka