22 þúsund lítra eldsneytisstuldur

Eldsneytinu var stolið af sjálfsafgreiðslustöð Atlantsolíu.
Eldsneytinu var stolið af sjálfsafgreiðslustöð Atlantsolíu. mbl.is/Hjörtur

Fimm karlmenn á aldrinum 40 ára til 68 ára hafa verið ákærðir af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við þjófnað á um 22 þúsund lítrum af eldsneyti frá Atlantsolíu. Eru tveir mannanna ákærðir fyrir þjófnaðinn, en hinir þrír fyrir hylmingu  með því að hafa keypt eldsneytið vitandi að um stolna vöru væri að ræða. Nemur hinn meinti þjófnaður rúmlega 5,4 milljónum króna í 101 tilviki.

Atvikin sem ákært er fyrir áttu sér stað frá maí 2013 til mars 2014, en þá stöðvaði lögregla ferð mannanna tveggja þar sem þeir voru að yfirgefa eldsneytisstöð Atlantsolíu eftir að hafa fyllt þrjár tunnur af díselolíu, alls 423 lítra.

Einn mannanna hafði áður unnið á tæknideild Atlantsolíu og átti hann við eldsneytisdæluna með því að aftengja eldsneytisteljara. Greiddi hann því næst lágmarksupphæð til að dæla en fékk margfalt meira eldsneyti afgreitt. Setti hann eldsneyti á eigin bifreið, bifreið annarra og á brúsa eftir atvikum. Er hann ákærður sérstaklega fyrir 33 tilvik þar sem hann tók eldsneyti fyrir 385 þúsund krónur í eigin þágu.

Í 68 öðrum tilfellum er mennirnir tveir ákærðir  fyrir að hafa í félagi stolið eldsneyti fyrir um 5,05 milljónir. Notaðist maðurinn við sömu aðferð og að ofan greinir, en auk þess að dæla á bíla settu þeir eldsneyti á tunnur sem seinni maðurinn flutti í sendiferðabíl sínum. Var oft dælt fyrir um 70 til 120 þúsund krónur í hvert skipti.

Maðurinn sem hafði unnið hjá Atlantsolíu er auk þess ákærður fyrir peningaþvott, en fram kemur í ákærunni að hann hafi selt mönnunum þremur, sem eru ákærðir fyrir hylmingu, eldsneytið á tunnum í alla vega 19 skipti, samtals 3.600 lítra. Var kaupverðið um 60% af söluverð á eldsneytisstöðinni og nýttu mennirnir þrír það í eigin þágu.

Krafist er þess að mönnunum verði dæmd refsing og þá krefst Atlantsolía þess að mennirnir tveir sem stóðu í þjófnaðinum greiði félaginu rúmlega 5,4 milljón auk dráttarvaxta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert