Fjöldi nýrra hælisumsókna á Íslandi gæti hugsanlega farið yfir þúsund á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun. Á síðasta ári bárust stofnuninni 355 hælisumsóknir.
„Miðað við þróunina í fyrra og það sem af er þessu ári gerum við ráð fyrir að fjöldi umsækjenda um hæli geti orðið á bilinu 600-1000 á þessu ári, hugsanlega meiri en 1000.“
Þá telur stofnunin að hagstæðast sé fyrir hælisleitendur á Íslandi að búa margir saman í húsnæði, eða 40 til 50 einstaklingar á sama stað. Þetta kemur fram í svari hennar við fyrirspurn mbl.is, en hún auglýsti í febrúar eftir leiguhúsnæði fyrir vistarverur hælisleitenda.
Frétt mbl.is: Leita að húsnæði fyrir allt að 100 einstaklinga
„Þetta er sú stærð sem stofnunin telur hagstæða m.t.t. þjónustu við íbúana,“ segir í svarinu.
„Ef úrræðin eru mikið minni þyrfti augljóslega mun fleiri úrræði og þá færi óþarfa tími í það að ferðast á milli staða sem annars gæti nýst til þjónustu við hælisleitendur. Með öðrum orðum telur stofnunin að þessi stærðareining sé hagkvæmust.“
Í auglýsingunni sagði einnig að í húsnæðinu þyrfti að vera til staðar lokað rými fyrir öryggisvörð og eftirlitskerfi. Stofnunin telur þó ekki hættu á því að árásir verði gerðar á vistarverurnar eða hælisleitendurna, líkt og gerst hefur í öðrum Evrópulöndum, t.a.m. Þýskalandi.
Frétt mbl.is: Fögnuðu þegar húsið brann
„Hér er fyrst og fremst um öryggisráðstöfun að ræða , þ.e. m.t.t. þess að upp geta komið ýmis atvik, fólk getur veikst skyndilega og kalla getur þurft á sjúkrabíl, koma þarf skilaboðum um læknatíma, viðtöl og ýmislegt fleira til fólksins og svo þarf að hafa einhvern á staðnum sem sér til þess að húsreglur séu virtar,“ segir í svari stofnunarinnar.