Töfrandi orkutæknifræðingur

„Ég myndi segja að það væri mjög góð tilfinning að sjá viðbrögð hjá fólki þegar það verður hissa og sérstaklega þegar það fer að hlæja,“ segir Gunnar Óli Sigurðsson, orkutæknifræðingur sem vinnur að lausnum á flóknum vandamálum fyrir fyrirtæki víða um land en er töframaður í hjáverkum.

Gunnar Óli er fyrsti viðmælandinn í Fagfólkinu, nýjum þáttum um líf og störf fólks sem starfar í iðnaði hér á landi.

Hann starfar hjá verkfræðistofunni Mannviti og í þættinum sýnir hann okkur deiglustól sem hann hannaði fyrir járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Stóllinn lyftir fljótandi málmi í stórri deiglu upp um tvo og hálfan metra og hellir á færiband. Málmurinn er u.þ.b. 1600° heitur og það var því að ýmsu að huga við hönnunina.

Þá kíkjum við á fund hjá Hinu íslenska töframannagildi þar sem áhugamenn um töfrabrögð og sjónhverfingar bera saman bækur sínar og að sjálfsögðu fengum við að sjá brögð hjá honum.

Gunnar Óli er með sveinspróf í vélsmíði og rafvirkjun, er vélstjóri auk þess sem hann útskrifaðist sem orkutæknifræðingur frá Tækniháskólanum. Á næstu mánuðum munum við hitta fjölmargt fólk sem vinnur í iðnaði hér á landi og fá innsýn í líf þeirra og störf. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Samtök Iðnaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert