Verslingar versluðu á Stjörnutorgi

Það skorti ekki viðskiptavini á Stjörnutorgi í hádeginu.
Það skorti ekki viðskiptavini á Stjörnutorgi í hádeginu. mbl.is/Rax

Lítið virðist hafa orðið úr mótmælum Verslunarskólanema á Stjörnutorgi í dag vegna lokana Kringlunnar á bílastæðum. 

Nemendur skólans höfðu ráðgert að mæta með nesti á Stjörnutorg og „taka öll sæt­in en kaupa ekki neitt“ til að mótmæla því að Kringlan hafi lokað stæðum við austurhlið byggingarinnar fyrir akandi Verslingum á morgnanna.

Frétt mbl.is: Verslingar í hart við Kringluna

Ljósmyndari mbl.is leit við á Stjörnutorgi í hádeginu þar sem hann hitti fyrir marga gesti á framhaldsskólaaldri, þar á meðal Verslinga. Þrátt fyrir nokkra leit fann hann þó enga gesti með nesti.

Frétt mbl.is: Bílakjallaranum áfram lokað

Formaður hagsmunaráðs NFVÍ segir umræðu um mótmæli hafa verið grín sem gekk of langt en svo virðist sem lending sé komin í málið með opnun annarra hæða stæðanna.

Hefðbundinn miðvikudagur á Stjörnutorgi

Sig­ur­jón Örn Þórs­son, fram­kvæmda­stjóri Kringl­unn­ar segir starfsfólk ekki hafa orðið vart við neitt annað en að um hefðbundinn miðvikudag á Stjörnutorgi væri að ræða.

„Alla jafna er þarna einhver blanda af krökkum sem eru með nesti og öðrum sem eru að kaupa mat á torginu svo það hefði ekkert verið óeðlilegt þó svo hefði verið í dag.“

Sigurjón segist telja að allir séu á sömu blaðsíðu með að ekki sé verið að loka alfarið á að Verslingar leggi bílum sínum við Kringluna enda sé aðeins verið að reyna að dreifa þunganum á stæði hússins.

Í gær var lokað á báðum hæðum bílastæðahússins austan við verslunarmiðstöðina en í dag var aðeins lokað á neðri hæðinni.

„Ég geri ráð fyrir að við höfum áfram lokað á neðri hæðinni eins og í morgun, þannig beinum við allavega einhverri umferð vestan fyrir. Það er einhver lending í málinu geri ég ráð fyrir.“

Það var lítið um heimasmurðar samlokur en þess meira um …
Það var lítið um heimasmurðar samlokur en þess meira um pítsusneiðar á torginu. mbl.is/Rax

Djók sem gekk of langt

„Þetta var bara djók sem gekk kannski aðeins of langt,“ segir Brynja Sigurðardóttir, formaður hags­mun­aráðs NFVÍ hlæjandi, aðspurð um hvort byltingarandinn hafi allur verið í nösunum á samnemendum hennar. 

Hún furðar sig á því að allir helstu fjölmiðlar landsins hafi fjallað um málið og á sterkum viðbrögðum í athugasemdakerfum. Segir hún afar ólíklegt að það sama væri uppi á teningnum ef um annan skóla en Verslunarskólann væri að ræða.

„Af því að þetta er Versló er allt hækkað upp á annað level og gert mikið mál úr því. Það er frekar magnað að sjá hvernig þetta hefur þróast á einum degi, þetta er ruglað dæmi.“

Brynja kveðst sjálf hafa mætt nógu snemma í morgun til að næla sér í stæði utan við Verslunarskólann. Hún segir Verslinga þó hafa orðið vara við að stæðin við Stjörnutorg hefðu verið opin og að fólk sé almennt ánægt með þá málamyndun.

Er þessu máli þá lokið? 

„Já, þessu „máli“ eða ekki „máli“.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert