Vegna deilna kirkjuráðs og biskups þjóðkirkjunnar var ákveðið að fá þrjá lögfræðinga til að greina, skýra og gefa álit á ábyrgð biskups annars vegar og kirkjuráðs hins vegar. Biskup og fulltrúa ráðsins greinir meðal annars um hvort biskup sé hærra eða lægra sett stjórnvald en kirkjuráð og í höndum hvers fjármál stofnunarinnar eigi að vera.
Nefndin, sem skipuð var Gesti Jónssyni hæstaréttarlögmanni, Pétri Kr. Hafstein, fyrrum hæstaréttardómara og Trausta Fannari Valssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, skilaði álitsgerð sinni 12. febrúar sl. og hefur mbl.is hana undir höndum. Álitsgerðin er rúmlega sextíu blaðsíður og hefur ekki verið gerð opinber.
Þremenningarnir komust meðal annars að þeirri niðurstöðu að biskup teljist, að minnsta kosti um þau veraldlegu stjórnsýsluverkefni kirkjunnar sem unnt er að bera undir kirkjuráð og falla undir úrlausnarvald þess skv. 2. mgr 26. gr. þjóðkirkjulaga, vera lægra sett stjórnvald gagnvart ráðinu.
Í greinargerð biskups, sem kemur fram í álitsgerðinni, segir að eftir kjör kirkjuráðs síðla árs 2014 virðist hafi komið upp alveg nýr skilningur meðal kjörinna ráðsmanna á stöðu ráðsins. Þeir telji sig á grundvelli 27. gr. þjóðkirkjulaga hafa stjórn á þeim fjármunum sem renni til biskupsstofu á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997. Sá skilningur hafi ekki verið fyrir hendi með sama hætti hjá þeim kirkjuráðum sem störfuðu frá 1998 til 2014.
Skoðanamunur biskups og kirkjuráðsins hafi haft áhrif á störf kirkjuráðs og bitnað mjög á daglegum störfum biskups og starfsmanna hans á biskupsstofu. Sýn hinna kjörnu kirkjuráðsfulltrúa virðist vera sú að biskup sé ekki lengur forstöðumaður stofnunarinnar í hefðbundnum skilningi, sagði meðal annars í greinargerðinni.
Kjörnir fulltrúar kirkjuráðs sendu frá sér greinargerð þar sem sagði meðal annars að af 3. mgr. 26. gr., sbr. 24. gr. og 1. mgr. 26. gr., þjóðkirkjulaga megi ráða að kirkjuráð fari með æðsta vald innan kirkjunnar á framkvæmdasviði kirkjulegrar stjórnsýslu enda verði ákvörðunum kirkjuráðs á því sviði ekki áfrýjað til kirkjuþings þótt fjalla megi um slík mál á þinginu að frumkvæði einstakra kirkjuþingsmanna.
Þá komi skýrt fram í 3. mgr. 27. gr. að kirkjuráð hafi yfirumsjón með ráðstöfun fjár sem veitt er af opinberri hálfu til kirkjulegrar starfsemi. Kirkjuráð hafi því æðsta fjárstjórnarvald innan kirkjunnar sem taki jafnframt til þess fjár sem Alþingi veitir þjóðkirkjunni á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins, sbr. 3. gr. þjóðkirkjulaga.
Ljóst sé að fjármál og rekstrarmál þjóðkirkjunnar séu að öllu leyti í höndum kirkjuráðs enda lúti meginstarf þess að hinu veraldlega framkvæmdarvaldi innan kirkjunnar þar sem fjármál leiki aðalhlutverkið. Þar sem kirkjuráð með biskup Íslands í forsæti sé fjölskipað stjórnvald hljóti það að teljast eðlilegra en hitt að biskup Íslands hefði þetta einn á hendi.
Þá segja kjörnir kirkjuráðsmenn að kirkjujarðasamkomulagið frá 1997 sé einungis einn hluti af heildarfjármálum þjóðkirkjunnar sem séu á verksviði kirkjuráðs. Ekki séu nokkur rök til þess að þeir fjármunir kirkjunnar sem rætur eigi að rekja til kirkjujarðasamkomulagsins eigi að lúta öðru stjórnvaldi en kirkjuráði eða vera aðskildir frá fjármálum kirkjunnar. Engu skipti þótt samkomulagið hafi verið undirritað af biskupi Íslands einum fyrir hönd þjóðkirkjunnar enda sé hann forseti kirkjuráðs.
Í greinargerð biskups segir að jafnan hafi verið gengið út frá þeim skilningi að biskupsstofa væri ríkisstofnun eða opinber stofnun sem lúti stjórn biskups Íslands sem forstöðumanns stofnunarinnar. Biskup fari þannig eins og hver annar forstöðumaður ríkisstofnunar með ábyrgð á og ráðstöfunarrétt yfir tekjum stofnunarinnar í því skyni að uppfylla þær skyldur sem á biskupsembættinu hvíli samkvæmt lögum frá Alþingi, starfsreglum og samþykktum kirkjuþings og öðrum heimildum.
Aðaltekjustofn biskupsstofu sé endurgjald ríkisins á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997. Kirkjuráð hafi um áratuga skeið haft aðsetur á biskupsstofu samkvæmt starfsreglum kirkjuþings og nýtt sér þar margvíslega skrifstofu- og stoðþjónustu, svo sem á sviði fjármála. Biskup Íslands sé jafnframt forseti kirkjuráðs samkvæmt þjóðkirkjulögum. Kirkjuráð hafi ráðið sér framkvæmdastjóra 2001 og hafi sú skipan haldist síðan.
Alltaf hafi verið litið svo á að biskupsstofa væri ein heild og daglegur rekstur hennar að flestu leyti sem einn samrekstur þriggja aðila, þ.e. biskupsembættisins, kirkjuráðs og kirkjuþings, undir forystu biskups enda væri hann forstöðumaður stofnunarinnar og forseti kirkjuráðs lögum samkvæmt. Kirkjuráð hafi virt lögboðinn stjórnunarrétt og ákvarðanir biskups um starfsmannahald og forgangsröðun verkefna á biskupsstofu og almennt ekki skipt sér af þeim.
Biskup hafi á móti jafnan gætt þess að halda kirkjuráði upplýstu um stöðu mála. Þessari hugsun og framkvæmd hafi verið haldið óbreyttri eftir að kirkjumálasjóður var stofnaður 1994 og einnig eftir gildistöku þjóðkirkjulaga á öndverðu ári 1998, segir í greinargerð biskups.
Þá segir í greinargerð biskups Íslands að eftir kjör kirkjuráðs síðla árs 2014 virðist hafa komið upp alveg nýr skilningur meðal kjörinna ráðsmanna á stöðu ráðsins. Þeir telji sig á grundvelli 27. gr. þjóðkirkjulaga hafa stjórn á þeim fjármunum sem renni til biskupsstofu á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997. Sá skilningur hafi ekki verið fyrir hendi með sama hætti hjá þeim kirkjuráðum sem störfuðu frá 1998 til 2014. Hefði kirkjuráð slíkt fjárstjórnarvald yfir biskupsstofu væri það kirkjuráð en ekki biskup Íslands sem ákvarðaði endanlega forgangsröðun verkefna, starfsmannahald og skipulag stofnunarinnar.
Núverandi kirkjuráð hafi unnið eftir þessum skilningi kjörinna ráðsmanna og meðal annars ráðið sér framkvæmdastjóra sem hinir kjörnu kirkjuráðsmenn virðist telja að sé yfirmaður biskupsstofu undir stjórn kirkjuráðs. Biskup Íslands sé að þeirra dómi yfirmaður framkvæmdastjórans milli funda sem forseti kirkjuráðs.
Þeir telji að verði biskup í minnihluta við atkvæðagreiðslu í kirkjuráði beri framkvæmdastjóranum að hrinda í framkvæmd ákvörðun meirihlutans. Þessu sé biskup ósammála og sé skilningur hans sá sami og unnið hafi verið eftir áratugum saman. Þessi skoðanamunur hafi haft áhrif á störf kirkjuráðs og bitnað mjög á daglegum störfum biskups og starfsmanna hans á biskupsstofu.
Sýn hinna kjörnu kirkjuráðsfulltrúa virðist vera sú að biskup sé ekki lengur forstöðumaður stofnunarinnar í hefðbundnum skilningi og að skrifstofustjóri og aðrir starfsmenn biskupsstofu heyri undir framkvæmdastjóra kirkjuráðs. Kirkjuráð sé þannig orðið að eins konar fimm manna stjórn biskupsstofu með framkvæmdastjóra til að framkvæma ákvarðanir sínar.
Í greinargerð biskups Íslands segir að meirihluti kirkjuráðs sé með þessu framferði sínu að taka sér það forstöðumannsvald sem biskup hafi alltaf haft á biskupsstofu. Kjörnir fulltrúar í kirkjuráði séu með öðrum orðum að reyna að taka sér stöðu og vald biskupsembættisins að verulegu leyti. Sé skilningur þeirra réttur sé um stórfellda breytingu að ræða á áratuga framkvæmd án þess að lögum hafi verið breytt. Atbeina hins þjóðkjörna löggjafarvalds þyrfti hins vegar til að koma svona breytingu á.
„Verði að líta svo á að biskup hafi almenna heimild til að ráðstafa fé sem þjóðkirkjunni áskotnast, öðru en því sem veitt sé af opinberri hálfu til kirkjulegrar starfsemi,“ segir að lokum í greinargerð biskups.
Í álitsgerðinni segir að ljóst sé að kirkjuráð geti tekið til úrlausnar málefni sem biskup Íslands hefur áður tekið ákvörðun í. Verður því ekki annað séð en að hann teljist til þeirra kirkjulegu stjórnvalda sem ráðið geti haft lögsögu yfir.
Þar sem biskup á sæti í ráðinu og er formaður þess gerir ákvæðið ráð fyrir því að sú staða geti komið upp að hann hafi áður tekið ákvörðun í viðkomandi máli. Ber honum í slíku tilviki að víkja sæti við afgreiðslu þess í kirkjuráði.
Af framangreindu leiðir að biskup Íslands telst, að minnsta kosti um þau veraldlegu stjórnsýsluverkefni kirkjunnar sem unnt er að bera undir kirkjuráð og falla undir úrlausnarvald þess samkvæmt 2. mgr. 26. gr. þjóðkirkjulaga, vera lægra sett stjórnvald gagnvart ráðinu, segir í álitsgerðinni.
Sú niðurstaða fær einnig vel samræmst því hvernig verkefnum beggja aðila er lýst í löggjöfinni með víðum hætti. Slíkt felur ekki í sér skörun ef litið er svo á að þessi kirkjulegu stjórnvöld fari að minnsta kosti að hluta til með sömu verkefnin, sitt á hvoru stjórnsýslustiginu innan kirkjunnar.
Í álitsgerðinni segir að ekki verði annað ráðið af gögnum málsins að hlutverk kirkjuráðs sé að hafa yfirumsjón með „ráðstöfun fjár sem veitt er af opinberri hálfu til kirkjulegrar starfsemi“, sbr. 3. mgr. 27. gr. þjóðkirkjulaga, nái til heildarfjárhags þjóðkirkjunnar.
Þannig sé hlutverk kirkjuráðs að hafa yfirumsjón með heildarfjárhag þjóðkirkjunnar, láta vinna heildaryfirlit yfir fjármál þjóðkirkjunnar fyrir kirkjuþing, gera fjárhagsáætlun fyrir þjóðkirkjuna í heild 50 og standa skil á því gagnvart kirkjuþingi að reikningar stofnana og embætta kirkjunnar hafi hlotið viðhlítandi endurskoðun.
Hversu mikið vald felst í gerð fjárhagsáætlunar fer hins vegar eftir eðli þess verkefnis sem um ræðir hverju sinni og hversu ríkar valdheimildir önnur kirkjuleg stjórnvöld hafa um nánari útfærslu þeirra að lögum, segir í álitsgerðinni.
Í ráðinu sitja:
Svana Helen Björnsdóttir, fulltrúi leikmanna,
Stefán Magnússon, fulltrúi leikmanna,
sr. Elínborg Gísladóttir, fulltrúi vígðra,
sr. Gísli Gunnarsson, fulltrúi vígðra og
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sem er forseti ráðsins.
Varamenn í kirkjuráði eru:
Einar Karl Haraldsson, fulltrúi leikmanna
Drífa Hjartardóttir, fulltrúi leikmanna
Gísli Jónasson, fulltrúi vígðra
Geir Waage, fulltrúi vígðra
Kirkjuráð er kjörið til fjögurra ára.