Á morgun verður Mottudagurinn svokallaði haldinn hátíðlegur og hvetur Krabbameinsfélagið alla landsmenn, konur og karla, til að halda upp á daginn með því að leyfa karlmennskunni að skína sem aldrei fyrr.
„Á Mottudeginum látum við ímyndunaraflið ráða för og skörtum öllu mögulegu tengdu karlmanninum, fatnaði, höfuðfötum, gerviskeggi o.s.f. og hvetjum alla landsmen til að gera slíkt hið sama. Leyfum karlmennskunni að njóta sín þennan dag,“ segir í tilkynningu. Þá hvetur Krabbameinsfélagið hópa til að gera eitthvað skemmtilegt saman og láta mynda sig á ýmsan hátt og senda á mottumars@krabb.is eða setja á Facebooksíðu átaksins.
Hjá Krabbameinsfélaginu er hægt að fá ýmislegt sem fólk getur notað til að skreyta sig á Mottudaginn. Þar á meðal gervimottur sem eru sex saman í pakka, mottuflaska, mottuboli, bindi, hálsbönd, mottuslaufu o.fl. Skoðaðu allar mottuvörurnar í netverslun Krabbameinsfélagsins. Einnig er hægt að koma við á skrifstofu félagsins í Skógarhlíð 8 frá 8:30-16:00 og versla mottuvörur.
Meginmarkmið átaksins „karlmenn og krabbamein / Mottumars 2016“ var líkt og fyrri ár að hvetja karlmenn til að þekkja einkenni krabbameina og stuðla að jákvæðum breytingum á lífsháttum til að koma í veg fyrir krabbamein. Átak Mottumars er tvíþætt; bæði sem árvekni- og fjáröflunarátak. Þeir fjármunir sem safnast í átakinu eru notaðir í forvarnir, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknir.