Gummi Ben lýsir frá EM

Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson. mbl.is/Eva Björk

„Þetta leggst frábærlega í mig. Eins og hvert annað mannsbarn á Íslandi er ég þrælspenntur fyrir þessu móti,“ segir Guðmundur Benediktsson, sem mun lýsa öllum leikjum Íslands á Evrópumeistaramóti karla í knattspyrnu í sumar og öðrum helstu leikjum á mótinu. Það er Síminn sem mun gera mótinu skil og verða leikirnir sýndir á tveimur rásum, SkjáEinum og Síminn sport.

„Það er dásamlegt að fá að taka þátt í þessu móti, þó það sé ekki með sama hætti og mig dreymdi um í æsku. En nær kemst ég líklega ekki þeim draumi. Og það mat byggi ég á ástandi líkamans,“ heldur hann áfram og skellir upp úr. „En að öllu gríni slepptu þá er það mikill heiður fyrir mig að vera fenginn til að lýsa frá þessum risastóra viðburði.“

Guðmundur viðurkennir að beiðni SkjásEins hafi komið honum á óvart enda er hann í fullu starfi sem íþróttafréttamaður hjá öðrum fjölmiðli, 365. „Miðlarnir náðu samkomulagi sín á milli og fyrir það er ég þeim báðum afar þakklátur. SkjáEinum fyrir að leita til mín og 365 fyrir að lána mig í verkefnið. Ég er bara lánaður eins og hver annar leikmaður og sný aftur til minna starfa hjá 365 að EM loknu,“ segir Guðmundur.

Þorsteinn J. verður ritstjóri umfjöllunar Símans og SkjásEins um EM. Hann leggur mikla áherslu á að hafa hana fjölbreytta en honum til halds og trausts verða Pétur Marteinsson, fyrrverandi landsliðsmaður, og dagskrárgerðarkonurnar Hugrún Halldórsdóttir og Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir.

„Hópurinn lagði upp með að þessi dagskrárgerð yrði ekki bara fótbolti. Heldur myndum við líka freista þess að fanga stemninguna í kringum þennan viðburð sem er óumdeilanlega einn stærsti íþróttaviðburður Íslandssögunnar. Íslenska karlalandsliðið er komið inn á stóra sviðið og ef við færum þetta heim á tónlistina má líkja þessu við það að túra með U2,“ segir Þorsteinn.

„Samhengið er miklu stærra en leikirnir sjálfir og þess vegna er spennandi að vera með fjölbreyttan hóp hæfileikafólks sem sér hlutina í ólíku ljósi. Síðan fáum við auðvitað til okkar gesti úr öllum áttum sem koma til með að bæta heilmiklu við þessa umfjöllun,“ bætir hann við.

Bækistöð umfjöllunarinnar verður Petersen-svítan og útisvæðið á efstu hæð Gamla bíós í Reykjavík, sem Þorsteinn kallar raunar EM-svítuna og segir Gamla bíó flottasta sjónvarpssvið í gömlu góðu Reykjavík. Annars verður útsendingarsvæðið öll miðborg Reykjavíkur og allsstaðar þar sem EM-stemningu er að finna á landinu.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þorsteinn J.
Þorsteinn J. mbl.is/Golli
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert