Neyðast til að vera giftir áfram

Mennirnir fá ekki skilnað á Íslandi þó að þeir hafi …
Mennirnir fá ekki skilnað á Íslandi þó að þeir hafi gift sig hér. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Tveir erlendi samkynhneigðir menn sem giftu sig hér á landi árið 2011 fá ekki lögskilnað á Íslandi og neyðast til að vera áfram giftir þar sem lög í heimalöndum þeirra heimila ekki hjónabönd samkynhneigðara. Hæstiréttur staðfesti ákvörðun héraðsdóms um að vísa máli þeirra frá.

Sýslumaðurinn í Reykjavík gaf mennina saman í desember árið 2011. Annar þeirra er Rússi en hinn Letti en hvorugt landið viðurkenni hjónabönd samkynhneigðra. Þeir höfðu engin tengsl við Ísland og komu hingað sérstaklega til að gifta sig. Síðar leitaði annar þeirra eftir skilnaði til sýslumanns en beiðninni var hafnað þar sem stefnandi uppfyllti ekki skilyrði hjúskaparlaga um lögheimili eða heimilisfesti á Íslandi.

Málinu var skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur sem vísaði því frá vegna þess að hvorugur mannanna er búsettur hér á landi.  Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar. Hann komst að þeirri niðurstöðu að málið félli ekki undir nein tilvik í lögum um lögsögu íslenskra dómstóla í hjúskaparmálum. Þá gilti undaþáguheimild í sömu lögum ekki í tilfelli þeirra þar sem lögin ættu aðeins við staðfesta samvist.

Mennirnir þurfa því að vera áfram giftir jafnvel þó að þeir hafi ekki búið saman undanfarin þrjú ár.

Enginn sem tekur á málinu

Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður annars mannanna, segir að svo virðist sem að gleymst hafi að setja inn ákvæði um skilnaði samkynhneigðra inn í hjúskaparlög.

„Ég fæ engar skýringar neins staðar. Maður er búinn að reyna að vekja á þessu athygli, skrifa og reyna að fá ráðuneytið til að lappa upp á lögin. Það er náttúrulega þingsins að laga þetta en frumkvæðið hlýtur að koma frá ráðherranum. Það er enginn sem er einhvern veginn að taka á þessu,“ segir Lára sem skrifaði meðal annars grein í Fréttablaðið um málið í dag.

Í raun sé ekkert meira sem mennirnir geti aðhafst enda sé kominn hæstaréttardómur í máli þeirra. Lára segir að niðurstaðan skipti kannski ekki neinu máli lagalega séð á meðan þeir séu búsettir í heimalöndum sínum. Staðan hefur hins vegar tilfinningaleg áhrif.

„Þeim líður ekkert vel með þetta. Ef þeir ætla að flytja eitthvað annað þá geta þeir ekki gift sig [aftur]. Það er klárt,“ segir Lára.

Verði lögunum ekki breytt hér á landi þurfa þeir annað hvort að bíða þess að hjónabönd samkynhneigðra verði viðurkennd í Rússlandi eða Lettlandi eða þá að flytja til annars lands sem gerir það og bíða þar til þeir hefðu unnið sér búseturétt þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert