Píratar hafa hafnað tillögum stjórnarskrárnefndar í rafrænum kosningum og munu því ekki styðja þinglega meðferð þeirra. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
„Þessar tillögur hafa lengi verið til umræðu hjá okkur Pírötum og settum við fram þá tillögu, í kosningakerfi okkar, að málið fengi þinglega meðferð, en því var hafnað,“ segir Helgi Hrafn, en flokkurinn hefur yfir að ráða rafrænu kosningakerfi til stefnumótunar.
Spurður hvað nú gerist í framhaldinu svarar hann: „Við þurfum að hittast og ræða betur hvað þetta þýðir nákvæmlega. En afstaða flokksins er sú að meirihluti þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni vill ekki að málið fái þinglega meðferð.“
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, tekur í svipaðan streng og segir þingflokkinn nú þurfa að hittast til að ráða ráðum sínum. „Nú þurfum við bara að koma saman og ræða málin.“