Samstarfsnefnd afneitar samkomulagi

Frá Þjóðminjasafninu.
Frá Þjóðminjasafninu. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Nefndarmenn í samstarfsnefnd Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands fría sig ábyrgð á nýjum samstarfssamningi sem undirritaður var á milli stofnananna í síðustu viku í bréfi sem þeir senda starfsmönnum HÍ, Þjóðminjasafnsins og forsætisráðuneytisins. Skrifað hafi verið undir breyttan samning án nokkurs samráðs við nefndina.

Samstarfsnefndin fékk það hlutverk að endurskoða samstarfssamning HÍ og Þjóðminjasafnsins í kjölfar þess að safnið var gert að háskólastofnun árið 2011. Í janúar í fyrra var nefndin komin með drög að samningi, að því er segir í bréfinu sem Bryndís Sverrisdóttir, Helgi Þorláksson, Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Steinunn Kristjánsdóttir skrifa undir.

Í byrjun þess árs tók Margrét Hallgrímsdóttir hins vegar aftur við sem þjóðminjavörður en hún hafði verið í ársleyfi til að setja á fót nýja skrifstofu þjóðminja í forsætisráðuneytinu. Samstarfsnefndin var kölluð til fundar í mars til að ræða samningsdrögin. Um haustið höfðu nefndarmenn hins vegar spurnir af því að ný samningsdrög lægju fyrir og kröfðust fundar. 

Breytingarnar ekki bornar undir samstarfsnefndina

Þá hafi komið í ljós að ný og gjörbreytt drög höfðu verið gerð, án samráðs við fulltrúa í samstarfsnefnd. Mikil umræða hafi verið á fundinum um einstök atriði en síðan hafi samstarfsnefndin ekki verið beðin að koma að málinu. Rektor Háskóla Íslands og þjóðminjavörður skrifuðu síðan undir nýjan samning um mánaðamótin og hafði þá enn ýmsu verið breytt og atriðum bætt við án þess að nokkuð af því væri borið undir samstarfsnefndina.

„Með þessu bréfi viljum við undirrituð, sem vorum fulltrúar Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands í samstarfsnefndinni, fordæma harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við gerð samningsins. Við stóðum ekki að gerð hans og berum á honum enga ábyrgð. Hér er því miður ekki vel farið af stað í samstarfi sem miklar vonir voru bundnar við að gæti orðið gott,“ segir í bréfi nefndarmannanna.

Vafasamt fyrir HÍ að skrifa undir

Eins benda nefndarmennirnir á að það sé vafasamt fyrir fulltrúa HÍ að skrifa undir samninginn þegar forsætisráðherra hyggst leggja fram frumvarp um að sameina Þjóðminjastofnun og Minjastofnun Íslands. Verði þær hugmyndir að veruleika sé við búið að Þjóðminjastofnun geti ekki staðið við samninginn.

„Samningurinn sem samstarfsnefndin vann að var miðaður við að Þjóðminjasafn skyldi vera háskólastofnun en með  fyrirliggjandi frumvarpsdrögum um sameininguna eru slíkar viðmiðanir í uppnámi,“ segir ennfremur í bréfinu.

Fyrirhuguð sameining Þjóðminjasafnsins og Minjastofnunar hefur verið gagnrýnd, til dæmis af starfsmönnum Minjastofnunar og Félagi íslenskra safna og safnmanna. Bent er á að frumvarp þess efnis sé illa undirbúið og ekkert samráð hafi verið haft um það. Sameining muni rýra gildi Þjóðminjasafnsins og trúverðugleika þar sem rannsóknastarf þess skerðist.

Fyrri fréttir mbl.is: 

Illa undirbúið frumvarp  og ekkert samráð

Gagnrýna tillögur um sameiningu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert