1.000 leiguíbúðir fyrir tekjulága

ASÍ ætlar að stofna íbúðafélag í tilefni aldarafmæli sambandsins, sem …
ASÍ ætlar að stofna íbúðafélag í tilefni aldarafmæli sambandsins, sem mun bjóða upp á leiguhúsnæði á hagstæðu verði fyrir tekjulágar fjölskyldur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Alþýðusamband Íslands og Reykjarvíkurborg undirrituðu í dag  samning vegna íbúðafélags sem ASÍ ætlar að stofna í tilefni aldarafmæli sambandsins. Reykjavíkurborg mun leggja félaginu til  lóðir og mun nýja félagið bjóða upp á leiguhúsnæði á hagstæðu verði fyrir tekjulágar fjölskyldur.

„Markhópurinn eru þeir í hópi hinna tekjulægstu, sem eru að nota upp undir helming tekna sinna til að borga leigu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.

Til stendur að byggja 1.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu til að byrja með, en ASÍ á eftir að kanna áhuga annarra sveitarfélaga á sambærilegu húsnæði. „Samkvæmt yfirlýsingu borgarstjóra þá verða veittar 150 íbúðalóðir á þessu ári, 250 á næsta ári síðan 300 íbúðir á ári árin tvö á eftir.“

10 milljónir í stofnfé

Gylfi segir að ASÍ muni leggja 10 milljónir króna í stofnfé fyrir íbúðafélagið og leita síðan til aðildarfélaga sinna um að þau veiti félaginu víkjandi lán upp á 100 milljónir.  „10 milljónir ekki stór fjárhæð en hún dugar til að vera með stofnfé í svona samvinnufélagi og þegar því er líka veitt bakland í formi víkjandi láns þá gerir það félagið rekstrarhæft svo það geti tekið þessi erfiðu spor til að byrja með.“

Forsendan fyrir íbúðafélaginu sé þó að alþingi afgreiði lagafrumvarpið um almennar íbúðir, sem er ramminn í kringum nýtt félagslegt íbúðakerfi.

„Við vorum búin að vera að leita hófanna hjá ASÍ hver væri líklegur til að fara í gang með svona framkvæmd og ég verð að viðurkenna að við urðum ekki varir við að neinn væri að gera slíkt. Enda er s.s. gert ráð fyrir því í lögunum að eignarmyndunin verði samfélagseign. Það var þess vegna niðurstaða miðstjórnar að við myndum stofna íbúðafélag á grundvelli þessara laga.“

Horft hafi verið til Búseta og sambærilegra félagaforma og að þegar íbúðirnar verði komnar í útleigu þá eigi félagið að vera sjálfbært.

Þarf að ljúka gerð laganna

„Félagar okkar í BSRB hafa ákveðið að fara í þetta með okkur. Það er vilji í okkar baklandi að fara í þetta. Nú munum við halda áfram að undirbúa samþykktir fyrir félagið. Borgin er búin að lýsa yfir sínum vilja, en það þarf að ljúka gerð laganna og semja reglugerðir. Við leggjum mikla áherslu á að alþingi hraði þeirri vinnu sem eftir er og við viljum að þetta fari í gang sem allra fyrst,“ segir Gylfi.

„Ég treysti því að stjórnvöld standi við sínar yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga og mér heyrist á öllu að það sé sæmileg sátt um þetta frumvarp og þess vegna ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að alþingi klári þetta frumvarp. 

Þetta er stórt verkefni og mun taka mörg ár. En 1.000 íbúðir skipta máli og ég vænti þess að menn muni finna fyrir breytingunni.“

Gylfi Arnbjörsson
Gylfi Arnbjörsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert