Að vera betri maður

Davíð Tómas Tómasson, körfuboltadómari og rappari.
Davíð Tómas Tómasson, körfuboltadómari og rappari. Morgunblaðið/Ásdís

Davíð Tómas Tómasson, öðru nafni Dabbi T, er körfuboltadómari og rappari en umfram allt ungur maður sem veit hvað hann vill. Hann hefur sagt skilið við áfengi, fíkniefni, sígarettur og klám og er hamingjusamur í „venjulegu“ lífi. Hann stundar heilbrigt líferni og vill hjálpa öðrum til að gera það sama. Eftir langt hlé er von á nýju rapplagi en með rappinu fær hann útrás fyrir tjáningu.

Það er kurteis og hraustur ungur maður sem mætir í viðtal á fallegum vetrarmorgni. Hann er stæltur með vel snyrt skegg og á handleggnum má lesa orðið Jesús ritað með fallegum stöfum. Það glittir í annað húðflúr í hálsmálinu en þar má lesa tilvitnun úr biblíunni. Ég spyr ekkert strax um það; við byrjum á erfiðum unglingsárum sem einkenndust af rappi og neyslu.

Fór út af brautinni þrettán ára

Davíð er Vesturbæjarstrákur, alinn upp á Melunum og Högunum. Hann gekk þar í Melaskóla og Hagaskóla en námið varð lítið meira. „Ég gerði einhvers konar tilraunir og fór í MS og FÁ og ég held ég hafi einhvern tímann verið skráður í FB,“ segir hann. Davíð þurfti nýlega að safna saman skólagögnum því hann hefur nám í íþróttafræði í haust, en hann hefur nýlega lokið prófi hjá Mími, sem hjálpar honum að komast beint upp á háskólastig. Gögnin leiddu ýmislegt í ljós sem hafði gleymst. „Sextán ára Davíð fékk fimm í lífsleikni. Ég veit ekki einu sinni hvernig það er hægt!,“ segir hann hlæjandi.

Ég spyr bara beint út: „Varstu brjálaður unglingur?“ „Já, ég var það, ég var alltaf í íþróttum og körfu þegar ég var yngri en það er mikil körfuboltafíkn í fjölskyldunni. Svo þegar ég var tólf, þrettán ára þá fór ég út af brautinni og ég missti áhugann á því,“ segir hann. „Einu sinni fékk mamma upphringingu frá skólanum þegar ég var þrettán ára en ég hafði verið úti að reykja. Mamma sagði bara, það getur ekki verið, þetta er litli engillinn minn, litli körfuboltasnillingurinn minn. Hún trúði því ekki,“ útskýrir hann.

„Ég var slæmi félagsskapurinn“

Þrettán ára byrjaði Davíð að drekka, reykja sígarettur og hass og segir að fíkillinn í sér hafi strax vaknað. „Mamma trúði þessu aldrei en þegar hún fór að finna kannabispoka hjá mér hélt hún bara að ég væri í slæmum félagsskap. En kannski áttaði hún sig ekki á því að ég var orðinn slæmi félagsskapurinn,“ segir hann.

„Svo fór ég á Vog fyrst þegar ég var sextán ára,“ segir hann en Davíð var edrú næstu fimm árin. Hann segir að hann hafi farið í meðferð vegna utanaðkomandi pressu en þegar þarna var komið stefndi í óefni. Hann segist hafa verið á leið í sterkari efni. „Ég var kominn út í fíkniefnabrölt,“ viðurkennir hann.

En edrútímabilið var gott þó hann hafi ekki unnið markvisst að heilbrigðara lífi og því fór sem fór. „Ég var bara unglingur, vakti á nóttunni og hægt og rólega var maður kominn í sama bransann aftur. Ég fór í aðgerð þarna og fékk heim með mér pokann fullan af pillum. Þá hrundi allt saman,“ segir hann en þá var hann 21 árs. „Ég var búinn að gera alls konar góða hluti,“ segir um hann um edrútímabilið. „Eins og verða körfuboltadómari. Það er ástríða mín í lífinu, það sem hjartað mitt slær fyrir. Þetta er það sem mig langar að gera í lífinu. En svo bara fer lífið á hliðina,“ segir hann.

Rappmenningin hefur breyst

Á þessum árum var íslenskt rapp að ryðja sér til rúms með Rottweiler hundana í fararbroddi. „Ég fékk fyrstu Rottweiler-plötuna í jólagjöf þrettán ára frá mömmu. Það voru stærstu mistök sem hún gerði í minni barnæsku,“ segir hann og hlær. Það varð ekki aftur snúið og Davíð varð heillaður af þessari nýju tónlist. „Svo fór ég sjálfur að fikta við að skrifa texta,“ segir hann en þá var hann fjórtán ára. „Ég var bara unglingur með míkrófón og internetið. Ég er ekki að segja að Rottweiler hafi skemmt æsku mína; það var alls ekki þannig. En þeir mótuðu stefnu í íslensku rappi,“ segir hann.

Davíð segir að rappmenning hafi breyst mikið síðan þá og ekki síst í textagerð en algengt var að textar væru gegnsýrðir af kvenfyrirlitningu, ruddalegu orðbragði og klámi. „Þetta hefur klárlega breyst. Menn hafa þroskast og samfélagið hefur breyst mikið á þessum tíu árum. Ég fullyrði það að ef Rottweiler myndu koma út með plötuna sína núna sem þeir gerðu þá, en hún var mjög klúr og gróf, þá yrði það ekki samfélagslega samþykkt. Ég á erfitt með að trúa því,“ segir Davíð.

Púaður niður af hetjum sínum

Davíð fékk tækifæri til að troða upp á skólaskemmtun. „Ég kom fram á minni fyrstu skemmtun þá en það var hipphopp-kvöld sem var haldið í Frostaskjóli, félagsmiðstöðinni. Þarna fékk ég að taka eitt lag í hléi. Þarna voru allar mínar helstu hetjur eins og Dóri DNA og Textavarp. Ég fór upp á svið rosa stressaður með lag sem var alveg frá hjartanu. Ég vissi bara hvernig skóm allir voru í því ég þorði ekki að horfa í augun á neinum. Svo var þetta vægast sagt slæmt allt saman. Og hetjurnar mínar bara púuðu mig niður af sviðinu. Það var svo hræðilegt að ég man það ennþá,“ segir hann en hann var ekki af baki dottinn. „Nei, ég hætti ekki. En ég fann það að ef ég myndi ná einhvers konar frama í þessum bransa, þá myndi ég ekki koma svona fram við neinn. Þegar ég svo gaf út plötuna mína og hafði auðvelt aðgengi að stúdíói voru ungir gæjar að líta upp til mín, þá leyfði ég þeim að koma að taka upp. Því þessi bransi á Íslandi á þeim tíma var ekki sérstaklega að bjóða nýja meðlimi velkomna. Þetta er bransi egósins og snýst allt um að vera bestur og þá voru menn í því að niðurlægja hver annan,“ segir hann.

Rapparinn Dabbi T snýr aftur

Davíð er búinn að taka upp lag nýlega sem verður frumsýnt á vefnum í byrjun næsta mánaðar. Hann segir að það muni koma í ljós hvort hann geri plötu í kjölfarið. „Ef það verður eftirspurn, þá verður framboð. Ég hef ekki gert tónlist lengi en það er eftirspurn eftir því að ég geri það,“ segir hann.

Í rappheiminum gengur hann undir nafninu Dabbi T en átján ára gamall gaf hann út plötuna Óheflað málfar. Hann var mikið að troða upp á þessum árum. „Þetta er tjáningarform fyrir mig. Nýja lagið heitir Blár og er sagan mín. Mér finnst þetta bara svo gaman, svo sjúklega gaman,“ segir hann.

Textar í rappi hafa einkennst af grófu og klúru orðbragði en Davíð segir að nýju textarnir séu það ekki. Hann samdi sjálfur grófa texta þegar hann var unglingur sem myndu hneyksla flest fólk. „Ég er ekki sami maður í dag. Þarna var ég unglingur að rífa kjaft með mikrófón,“ segir hann.

Klámið eins og hver önnur neysla

Davíð segist hafa mótast mjög af rapptónlist þess tíma en ekki síst af klámi. „Þrettán ára kynntist maður internetinu og þá opnaðist hafsjór af einhverjum viðbjóði. Og þetta mótar ungan mann þó ég hafi ekki séð það þá,“ segir hann. Klámið varð að fíkn sem tók hann langan tíma að ná tökum á. „Þetta hafði mikil áhrif á mig. Klámið er bara eins og neysla á öllu öðru sem er slæmt fyrir mig og þetta bara stigmagnaðist. Þegar ég var þrettán, fjórtán ára þá dugði að sjá brjóst en tíu árum seinna þá virkaði það ekkert lengur. En svo fór ég að taka til í mínu lífi og tók út hluti sem sýktu líf mitt. Ég hætti að reykja og drekka og fór að stunda heilbrigt líferni og þá sá ég að klámið var ekki gott fyrir líf mitt. Og ég gerði heiðarlega tilraun til að hætta að horfa á klám og það tók mig heilt ár. Pældu aðeins í því, heilt ár að segja skilið við það. Það segir ýmislegt um hversu sterk áhrif það hefur á fólk,“ segir hann.

Neyslan tók völdin

Þegar Davíð féll 21 árs gamall upplifði hann mikla vanlíðan. „Þetta var svo erfitt af því að mig langaði svo að lifa heilbrigðu lífi. Ég horfði til vina minna sem voru bara í háskóla og að kaupa sér íbúðir, voru að byggja upp heilbrigt líf. Eitthvað svona venjulegt. Ég horfði á það öfundaraugum. Og ég gerði tilraun til að blanda þessu tvennu saman, neyslunni og eðlilegu lífi. Reyndi það mjög stíft,“ segir hann og viðurkennir að blekkingin hafi verið mikil.

Þegar þarna var komið var Davíð kominn í sterkari efni og neyslan var að taka völdin. „Ég bjó með konu sem var ekki í neyslu og hún vissi ekkert hvað var í gangi. Ég drakk eiginlega aldrei því ég var að halda uppi blekkingunni. Ég er bara þannig fíkill að ég fer strax í daglega neyslu. Ef ég er fullur á þriðjudegi klukkan þrjú sjá það allir en ef maður notar efni sem ekki er lykt af og nær að stilla því þannig að maður sé ekki rangeygður, er hægt að viðhalda þessu í einhvern tíma. En svo bara hrundi þessi spilaborg. Og þegar hún hrundi, var það skrítin tilfinning. Þá var það pínu léttir. Ekki af því að ég ætlaði að hætta heldur af því að þá gat ég gert þetta í friði. Ég þurfti ekki alltaf að vera að ljúga og vera í brjáluðum blekkingarleik,“ segir hann. „Þú fékkst bara að vera dópisti í friði?“ spyr ég. „Já. En ég hafði alltaf þráð að lifa bara heilbrigðu og venjulegu lífi og þá fór ég að hefja meðferðargöngu. En það gekk ekkert. Ég reyndi eins og ég gat,“ segir hann en fíknin var öllu sterkari á þessum tíma.

Nálgast má viðtalið í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Davíð veit fátt skemmtilegra en að dæma körfu.
Davíð veit fátt skemmtilegra en að dæma körfu.
Dabbi T er aftur farinn að rappa eftir langt hlé.
Dabbi T er aftur farinn að rappa eftir langt hlé.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert