„Allflestir eru sammála um að bestu vísindin sem við höfum eru í ráðgjöf Hafró. Henni hef ég fylgt og það hefur virkað vel.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í Morgunblaðinu í dag, en hann átti fund sl. fimmtudag með talsmönnum Landssambands smábátasjómanna (LS), sem vilja að þorskkvóti verði aukinn um 30 þúsund tonn.
„Annars bíðum við eftir ráðgjöf Hafró vegna næsta fiskveiðiárs og væntum góðra tíðinda þaðan miðað við hvernig menn hafa talað á síðustu árum. Það hefur sýnt sig að langtímanýtingarstefna hefur skilað okkur góðum árangri, ekki síst í þorski, sem hefur ekki verið líffræðilega sterkari í hálfa öld. Það er gríðarlega góður árangur og sýnir að næstu árin sé líklegt að veiðistofninn muni vaxa,“ segir Sigurður Ingi í Morgunblaðinu.