Umræða um tillögu stjórnarskrárnefndar um þrjú ný ákvæði í stjórnarskránna fer fram á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Í ræðu Árna Páls Árnasonar, formanns flokksins, kom fram að jafnaðarmenn hafi lengi krafist breytinga á grundvallareglum og því væru breytingar á stjórnarskrá svo mikilvægar.
„Fyrir fundinum liggur engin tillaga forystu flokksins um eina leið eða aðra. Hér getum við rætt málin og heyrt ólík sjónarmið. Það er mikilvægt að muna fyrir okkur öll og þjóðina að óháð þessum tillögum stendur ennþá samþykkt stefna flokksins um að Samfylkingin muni berjast áfram fyrir því að þjóðarvilji til heildarendurskoðunar stjórnarskrár verði virtur og unnið verði áfram með tillögur stjórnlagaráðs á nýju kjörtímabili. Um það er algjör samstaða.“
Samfylkingin hvíli á trúnni á að hún geti breytt samfélaginu. „Samfylkingin reis úr djúpstæðri sannfæringu fólks um að hún gæti verið breytingaafl ekki mótmælaafl. Forverar hennar á vinstri væng íslenskra stjórnmála voru mjög góðir í að mótmæla, en ekki alltaf góðir í að breyta.“
Hlutverk Samfylkingarinnar nú sé líka „að sannfæra nýja kynslóð um að við getum verið raunsæ og tilbúin að fagna áfangasigrum og á sama tíma og við erum heit í hugsjónabaráttu fyrir endamarkmiðum.“
Á flokksfundi í vor gefist tækifæri til að hreinsa loftið og tefla fram forystu með skýrt umboð flokksmanna.
„Nú eru miklir umbrotatímar og Samfylkingin fer ekki varhluta af þeim. Við höfum nú tekið á óþolandi stöðu flokksins, sundrungu og endalausum vangaveltum um umboð eða umboðsleysi formanns flokksins með því að flýta formannskjöri og halda alvöru landsfund í vor þar sem kosið verður um alla forystuna. Meira afgerandi verður það ekki.
Með því gefst okkur tækifæri til að hreinsa loftið og raða upp á ný forystu með skýrt umboð flokksfólks. Við þurfum líka að grípa þetta tækifæri til að tala af hreinskiptni um það sem aflaga kann að hafa farið hjá okkur undanfarin ár og sameinast um svör við þeim spurningum sem að okkur er ávallt beint á vinnustöðunum, í fjölmiðlum og heita pottinum. Ef við gerum það ekki mun sú forysta sem kjörin verður 4. júní mæta jafn vopnlaus til þjóðmálaumræðunnar og við höfum gert síðasta árið.“
Slíkt megi ekki gerast. „Við þurfum ekki að biðjast afsökunar á stefnu okkar eða fólkinu okkar. Við getum verið stolt af að hafa haft metnað til stórra samfélagsbreytinga, en við þurfum að viðurkenna að við sóttum okkur ekki nægilegt afl til að knýja þær í gegn, til þess samfélags sem við erum sprottin úr.“
Jafnaðarflokkur 21. aldar þurfi að vera í miðju samfélagsins, ekki á jaðri þess. „Hann þarf að þora að taka sér stöðu í kallfæri við alla og vinna samfélagsbreytingum fylgi. Hann þarf að vera óhræddur að leita til fólks og fá stuðning þess gegn grónum valdakerfum og fjölbreyttum sérhagsmunaöflum. Hann þarf að vera óhræddur að vinna öll mál fyrir opnum tjöldum og ná þannig yfirhöndinni gagnvart klíkuskap og þeim sem segja eitt opinberlega en gera annað þegar enginn sér til.“