Erlendur ferðamaður slasaðist við Víti í Leirhnjúk fyrr í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá slysavarnarfélaginu Landsbjörg. Maðurinn rann í hálku og féll á myndavél sem hann bar um hálsinn.
Kvartaði hann vegna öndunarerfiðleika og treysti sér ekki til þess að standa upp. Björgunarsveitin Stefán á Mývatni var kölluð út. Var hlúð að manninum sem var orðinn nokkuð kaldur, og hann borinn niður í sjúkrabíl sem beið skammt frá Kröfluvirkjun. Var hann fluttur til Akureyrar til frekari rannsókna.