Sorglegt væri ef enn eitt kjörtímabilið liði hjá án þess að breytingar verði gerðar á stjórnarskrá að mati Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna. Bæði Píratar og Samfylkingin hafa orðað efasemdir um tillögur stjórnarskrárnefndar en Katrín segir mikilvægt að hún fái ráðrúm til að ljúka vinnu sinni.
Píratar hafa hafnað þinglegri meðferð þriggja tillagna stjórnarskrárnefndar um viðbótarákvæði í stjórnarskrá í rafrænum kosningum og í gær sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að umtalsverðar efasemdir hafi komið fram um ákvæðin á flokksstjórnarfundi flokksins. Stemmingin hafi verið „treg“ gagnvart tillögunum.
Katrín, sem á sæti í stjórnarskrárnefnd, segir að tillögurnar hafi verið kynntar flokksmönnum VG á fundum og umræðusvæðum að undanförnu. Stemmingin þar hafi verið sú að mikilvægt sé að þingið og þjóðin fái að segja skoðun sína á tillögunum.
„Það hefur svona verið meginlínan að þetta ferli fái að klárast þannig að lokaorðið sé þjóðarinnar en auðvitað eigum við eftir að taka endanlega afstöðu til ákvæðanna vegna þess að þau eru ekki tilbúin. Það er auðvitað gagnrýni uppi á ákveðna þætti í ákvæðunum en við höfum reynt að horfa á hvort að við teljum heildarniðurstöðuna vera til bóta eða ekki og taka ákvörðun út frá því,“ segir Katrín.
Sjálf segist hún vera af fullum heilindum í vinnu stjórnarskrárnefndar og leggur áherslu á að hún ljúki sínum störfum.
„Mér finnst líka mikilvægt að nefndinni verði gefið ráðrúm til að ljúka vinnunni áður en flokkarnir fara að álykta um ákvæðin áður en þau eru einu sinni komin til skila,“ segir hún.
Ef vinna nefndarinnar rennur út í sandinn nú þurfi fólk að taka afstöðu til stjórnarskrárbreytinga í næstu þingkosningum. Þá þurfi flokkarnir að kynna sína afstöðu, að mati Katrínar.
„Við höfum auðvitað talað fyrir stjórnarskrárbreytingum en verið mjög reiðubúin að taka þær í áföngum í nafni þess að reyna að ná góðri sátt um þær breytingar. Það væri mjög sorglegt ef enn eitt kjörtímabilið líður án þess að neinar breytingar verði gerðar,“ segir formaðurinn.
Þrír fundir eru á dagskrá stjórnarskrárnefndar í vikunni þar sem nefndarmenn munu fara yfir þann fjölda umsagna sem hefur borist um tillögur hennar. Segir Katrín að margar umsagnanna séu mjög góðar en hún geti ekki sagt til um hversu langan tíma taki að vinna úr þeim.