Viðbótarákvæðin sem stjórnarskrárnefndar hefur lagt til að bætt verði við stjórnarskránna eru til bóta að mati þingmanna Bjartar Framtíðar.
„Þetta er málamiðlun sem að við í þingflokkinum erum þokkalega ánægð með,“ segir Brynhildur Pétursdóttir þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Píratar hafa hafnað þinglegri meðferð þriggja tillagna stjórnarskrárnefndar um viðbótarákvæði í stjórnarskrá í rafrænum kosningum og í gær sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að umtalsverðar efasemdir hafi komið fram um ákvæðin á flokksstjórnarfundi flokksins. Stemmingin hafi verið „treg“ gagnvart tillögunum.
Brynhildur segir skiljanlegt að margir séu heitir í stjórnarskrárumræðunni. „Þarna eru margir sem koma að borðinu og það skiptir máli að hafa það í huga, en við í Bjartri framtíð teljum að þessar þrjár tillögur séu til bóta.“
Vissulega hefðu þau viljað sjá róttækari tillögur. „En þetta er gott skref í rétta átt, sérstaklega ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er gríðarlega mikilvægt.“ Raunsætt mat sé að ekki hafi verið lengra komist að sinni. „Maður þvingar ekki svona í gegn,“ segir hún.
Þó breytingar verði gerðar á stjórnarskránni nú þýði það ekki að þar eigi að láta staðar numið. „Það er ýmislegt eins og kaflinn um forsetann, sem við verðum að halda áfram með.“ Hún nefnir sem dæmi þá stöðu sem upp kann að koma í tengslum við næstu forsetakosningar. „Þar erum við til að mynda að horfa upp á það að forseti þarf ekki að hafa meirihluta atkvæða á bak við sig.“
Spurð um viðbrögð Pírata og Samfylkingar, segir Brynhildur: „Svo ég tali fyrir mig, að þá myndi mér finnast það mjög miður ef málið fer ekki í gegn og ég veit ekki alveg hvað væri fengið með því.“